„Meðbyrinn hefur vægast sagt verið ótrúlegur"

vonarstyrkur webFjölmennur stofnfundur Vonarstyrks var haldinn í gærkvöldi, en það eru stuðnings- og notendasamtök fólks sem hefur orðið fyrir áhrifum átröskunar á einhvern hátt.

Eins og Austurfrétt sagði frá hér, er Eskfirðingurinn Guðrún Veiga Guðmundsdóttir ein þriggja sem standa að stofnun Vonarstyrks. Auk hennar eru það þau Þorgerður María Halldórsdóttir og Styrkár Hallsson, en öll hafa þau mætt átröskun á einn eða annan hátt, annað hvort sjálf barist við sjúkdóminn eða sem aðstandendur.


Nauðsynlegt að opna umræðuna

„Meðbyrinn hefur vægast sagt verið ótrúlegur," segir Guðrún Veiga í samtali við Austurfrétt í morgun.

„Nú eru rétt tæpir tíu dagar síðan við opinberuðum að samtökin væru í fæðingu og viðtökurnar hafa verið á þann hátt – tjah, við skulum segja að stofnendur hafa ekki verið langt frá því að verða klökkir margoft á þessu stutta tímabili. Við höfum fengið stanslaus skilaboð, tölvupósta, símtöl frá ömmum, öfum, frænkum, kennurum og nefndu það, það eru margir þarna úti sem málið varðar á einn eða annan hátt."

Guðrún Veiga segir þremenningana hafa vitað af þörfinni fyrir slík samtök en hún hafi reynst mun meiri en þau bjuggust við.

„Mig að minnsta kosti óraði aldrei fyrir þessum viðbrögðum sem við höfum fengið og á aðeins örfáum dögum höfum við náð að opna umræðuna talsvert, sem er ofboðslega nauðynlegt. Viðbrögðin hafa meðal annars sýnt mér að mikil þörf er á Vonarstyrk fyrir aðstandendur, þeir hafa verið mjög duglegir að hafa samband við okkur og lýsa yfir ánægju sinni."


Stofnendur í geðshræringu

Stofnfundurinn var haldinn í gærkvöldið í húsnæði Geðhjálpar í Borgartúni. „Ég fæ nú bara hjartslátt þegar ég hugsa um fundinn," segir Guðrún Veiga.

„Hann var miklu stærri en við nokkurn tímann þorðum að vona. Mætingin var ótrúleg, við vorum að vísu svo upptekin af eigin stressi að enginn áttaði sig á að telja stólana. En við fylltum salinn og gott betur en það, líklega hafa verið um 70 manns.

Við vorum blessunarlega búin að undirbúa okkur bæði fyrir sjö manns og sjötíu þannig að þetta gekk allt eins og í sögu. Áhugi fundargesta á samtökunum var hreint út sagt stórkostlegur og við stóðum eftir með margar blaðsíður af nöfnum og símanúmerum frá fólki sem hefur áhuga á að starfa með okkur.

Það verður að segjast að þegar fundargestir höfðu yfirgefið húsið stóðum við stofnendurnir eftir í dálítilli geðshræringu sem endaði svo í spennufalli og faðmlögum. Þvílíkar viðtökur sem við höfum fengið, ég má til með að nýta tækifærið og þakka öllum sem mættu í gær, takk fyrir blómin, faðmlögin, áhugann og viljann til að vinna með okkur."

Guðrún Veiga segir að stofnfundurinn hafi haft það að markmiði fá fólk að borðinu til þess að koma með hugmyndir.

„Við vildum sjá hvað fólk vill að slík samtök geri. Við byggjum ekki upp samtök á hugmyndum okkar þriggja heldur þurfa fleiri að vera með okkur í liði til þess að starfið verið sem árangursríkast. Nú höfum við safnað í þetta lið, byrjunarliðið að minnsta kosti, fleiri eru vissulega velkomnir og næsta skref er að hefja hugmyndarvinnuna. Við höldum svo aðalfund fljótlega og hefjumst vonandi handa við fjáraflanir af ýmsu tagi sem fyrst," segir Guðrún Veiga að lokum.

Ljósm: Styrkár Hallsson, Þorgerður María Halldórsdóttir og Guðrún Veiga Guðmundsdóttir. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar