Helgin: Nýdönsk leikur skemmtileg lög og Litlu Ljóðahátíðinni lýkur

nydonsk skemmtilegirLoResÞað er nóg um að vera á Austurlandi um helgina og ýmsir skemmtilegir viðburðir fara fram. Litla Ljóðahátíðin hófst um síðustu helgi og heldur áfram núna um helgina með viðburðum víða um Austurland.

Á laugardag fer fram útgáfuhátíð á Hótel Héraði á Egilsstöðum kl. 16:00 þar sem Lubbi Klettaskáld og Urður Snædal fagna útgáfu nýrra ljóðabóka og Þórdís Gísladóttir, Kristín Svava Tómasdóttir og Halldór L. Halldórsson lesa upp úr nýjum verkum sínum. Sami hópur ljóðskálda heldur síðan á Seyðisfjörð, en kl. 20:00 á laugardagskvöld hefst notaleg kvöldstund í HEIMA, þar sem ljóðskáldin lesa upp úr verkum sínum.

Á sunnudag verður svo boðið upp á súpu og ljóð í Löngubúð á Djúpavogi. Þar sjá skáldin Þórdís Gísladóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Lubbi Klettaskáld og Stefán Bogi Sveinsson um andlega næringu en Langabúð um líkamlega næringu og hefst viðburðurinn kl. 11:30. Ljóðskáldin halda svo að Hala í Suðursveit og þar lýkur Litlu Ljóðahátíðinni kl. 15:00 með ljóðadagskrá, þar sem skáldin lesa upp úr verkum sínum á slóðum Þórbergs.

Nýdönsk leikur skemmtileg lög í Valaskjálf
Hljómsveitin Nýdönsk kemur fram á tónleikum þessa dagana og leikur ýmist skemmtileg eða leiðinleg lög. Á föstudag verður sveitin í Valaskjálf og tekur þar sín skemmtilegustu lög, en það eru þau lög sem í langri sögu sveitarinnar hafa notið hvað mestra vinsælda hjá útvarpsmönnum og aðdáendum.

Tónleikarnir í Valaskjálf hefjast kl. 21:00 á föstudagskvöld.

Charles Ross fimmtugur
Tónskáldið Charles Ross er fimmtugur og í tilefni af því heldur hann afmælistónleika í Skriðuklaustri á laugardag kl. 16:00. Þar mun Kammerhópurinn Stelkur leika vel valin verk eftir Charles. Aðgangur ókeypis og hægt að skoða innsetninguna „dogger“ í gallerí Klaustri.

Gospel á Eskifirði
Eins og mörg undanfarin ár mun meistari gospel-sveiflunnar Óskar Einarsson vera á ferðinni ásamt söngkonunum Hrönn og Fannýju og halda námskeið í gospel-söng og tónleika í framhaldi af því ásamt hljómsveit Jóns Hilmars Kárasonar. Gestasöngvari tónleikanna verður stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson sem ekki er þörf á að kynna.

Námskeiðið fer fram í Eskifjarðarkirkju, á föstudag frá kl. 19:00 – 22:00, laugardag frá 10-15 og sunnudag frá 13-15. Tónleikarnir eru svo á sunnudag kl. 16. Miðaverð er kr. 2000. Námskeiðið stendur öllum opið og er þátttakendum að kostnaðarlausu og skal þátttaka tilkynnt við fyrstu hentugleika á netfang miðstöðvarinnar This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

85 ára starfsafmæli Rafveitu Reyðarfjarðar og vígsla göngubrúar yfir Búðará
Í tilefni af 85 ára starfsafmæli sínu, býður Rafveita Reyðarfjarðar í alvöru grillveislu, laugardaginn 19. september nk. Einnig verður nýja göngubrúin yfir Búðará vígð. Nýja göngubrúin liggur yfir Búðarárstíflu og tengir saman þau frábæru göngu- og útvistarsvæði sem eru austan og vestan megin árinnar.

Rafveitan hafði forgöngu um brúargerðina og naut til þess stuðnings Landsnets og Alcoa Fjarðaáls. Í tilefni af 85 ára starfsafmælinu, verður þessi glæsilega brú verður tekin formlega í notkun með samhentu átaki framkvæmdar- og stuðningsaðila. Munu Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Magnús Ásmundsson, forstjóri Alcoa og Ragnar Bjarni Jónsson, Landsneti, klippa á vígsluborðann samtímis með Sigfúsi Guðlaugssyni, rafveitustjóra.

Afmælishátíðin færir sig síðan um set, niður að rafstöðvarhúsinu, þar sem björgunarsveitin Ársól bíður með grillveislu að hætti rafveitunnar og ljúfa harmónikutóna. Vígsla göngubrúarinnar hefst kl. 17 og grillveislan kl. 18.

Góða helgi!

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.