MurMur stefnir á Músíktilraunir: Vilja vera eins og vel smurð dísilvél

murmurAustfirska unghljómsveitin MurMur hefur verið á miklu flugi síðan hún var stofnuð í vor og stefnir á þátttöku í Músíktilraunum.
Hljómsveitin MurMur varð til á Hljómsveitarnámskeiði Austurlands sem Jón Hilmar Kárason stóð fyrir í vor. Sveitin var upphaflega skipuð söngvaranum og gítarleikaranum Ívari Andra Bjarnasyni frá Egilsstöðum, trommuleikaranum Bergsveini Ás Hafliðasyni frá Fossárdal og bassaleikaranum Jens Albertssyni frá Djúpavogi.

„Við spiluðum Led Zeppelin lagið Black Dog og eitt frumsamið lag eftir Ívar Andra sem er okkar helsti lagahöfundur. Eftir mjög skemmtilegt námskeið fengum við að opna Jasshátíðina í Valaskjálf en við flytjum frumsamið blús og rokk í 70's stíl. Þarna vorum við ekki enn komnir með nafn heldur vorum alltaf kallaðir Ívar og félagar," segja strákarnir í samtali við Austurgluggann.

MurMur hefur fengið mörg skemmtileg tækifæri til þess að spila í sumar og komu meðal annars fram í tengslum við Ormsteiti sem og á tónleikum á Gömlu símstöðinni á Egilsstöðum.

„MurMur nafnið kom svo um miðjan ágúst. Nafnið er úr latínu og stendur fyrir hjartaóhljóð eða hjartasjúkdóm. Hugmyndin af því kom þegar litli frændi Ívars greindist með slíkt.

Jens ákvað svo að gefa bassanum frí í bili og við vorum því bassaleikaralausir. Við ákváðum að spila í Löngubúð á Djúpavogi í september og höfðum þá samband við Daða Jóhannsson sem einnig var á námskeiðinu hjá Jóni Hilmari, en hann er búsettur á Reyðarfirði. Tónleikarnir gengu mjög vel og áhorfendur voru alveg frábærir.

Eftir það höfum við spilað á fjölskyldudögum Alcoa, hituðum upp fyrir hljómsveitina Dútl um síðustu helgi og munum hita upp fyrir Dúndurfréttir í Valaskjálf í október.

Okkur hefur gengið ótrúlega vel en við finnum fyrir því að vera staðsettir í Fossárdal, Reyðarfirði og Egilsstöðum. Það krefst mikils skipulags í tengslum við æfingar. Auk þess erum við allir í ýmsum íþróttum og tómstundum. Við fáum mikinn stuðning og fjölmörg tækifæri til þess að spila – það standa margir með okkur."

Vona að fleiri bönd að austan fylgi í kjölfarið

Strákarnir í MurMur stefna ótrauðir á að taka þátt í Músíktilraunum í apríl en nokkuð langt er síðan austfirsk hljómsveit tók þátt í þeirri keppni. „Okkur finnst vera kominn tími á Austurlandið í Músíktilraunum því það eru margir flinkir krakkar hérna fyrir austan – við vonum að fleiri fylgi svo í kjölfarið.

Undirbúningurinn fyrir svona ævintýri felst aðallega í því að koma sem mest fram og spila sem mest saman svo við verðum eins og vel smurð dísilvél. Við þurfum einnig að taka upp tvö lög í stúdíói og skila með umsókninni okkar en hana megum við senda inn í febrúar.

Við höfum mikinn hug á því að fara í tónleikaferð um landið til þess að kynna okkur svo fólkið í salnum í Músíktilraunum þekki nafnið okkar en það kýs nefnilega lag áfram í úrslitin. Það er ekki beinlínis sanngjarnt og auðvelt fyrir höfuðborgarbúa að koma með marga með sér. Með því að ferðast um og kynna okkur eigum við meiri möguleika og Græni hatturinn á Akureyri og fleiri staðir eru á dagskránni."

Frábært dæmi um hvernig hljómsveitarnámskeið á að virka

Jón Hilmar Kárason, lærifaðir strákanna, segir MurMur frábært dæmi um það hvernig hljómsveitarnámskeiðið á að virka. „Þrír gaurar frá þremur mismunandi sveitarfélögum stofna hljómsveit og halda áfram að æfa og spila að námskeiði loknu. Það þarf aldeilis góða foreldra til að láta svona ganga upp. Það er líka ótrúlega gaman að þeir skulu spila einungis frumsamda tónlist. Bandið er að verða mjög gott enda eru þeir duglegir að spila og æfa, það skín af þeim spilagleðin sem hjálpar alltaf til."

Þeim sem vilja styrkja MurMur í ævintýrinu fyrir Músíktilraunir er bent á reikning þeirra: 0175-05-070425 Kt. 130798-4389.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar