40 mínútur að fljúga austur: Gaman að geta kvatt Fokkerinn með hraðameti
![flugmet web](/images/stories/news/2015/flugmet_web.jpg)
Meðal jarðhraði vélarinnar var um 750 km/klst en vanalega fara vélarnar á um 500 km hraða. Meðalflugtími milli Egilsstaða og Reykjavíkur er 55 mínútur og ferðin í dag austur því kortéri styttri en venjulega.
„Vindurinn í lofti var um 70 m/s og það var sterk vestanátt sem gaf okkur hreinan meðbyr sem gerði þetta met að verkum," segir Elvar Þór Hjaltason, flugstjóri.
Hann segir flugferðina hafa verið þægilega. „Vindurinn var hreinn að vestan. Hann kom ekki yfir jöklana svo það var engin ókyrrð á leiðinni fyrir utan smá hreyfingu í aðfluginu."
Nýjar vélar fljúga hraðar
Eldra metið var sett 27. febrúar 2013 en sú ferð tók 41 mínútu. Það er hins vegar líklegt að hraðamet í áætlunarflugi innanlands verði slegið fljótlega aftur.
Eftir hálfrar aldar þjónustu stendur til að leggja Fokker-vélunum hjá Flugfélagi Íslands í febrúar en Fokker 50 vélar, eins og var í fluginu í dag, hafa verið notaðar frá 1992. Í staðinn koma hraðskreiðari Dash Q400 vélar.
„Það er gaman að geta kvatt Fokkerinn með nýju hraðameti. Venjulegur hraði Dash-vélanna eru 700 km/klst. Flugtíminn á milli á því eftir að styttast verulega og við eigum eftir að sjá mörg met falla í innanlandsfluginu þegar þær fara að fljúga."
Gallinn við meðbyrinn er að hann breytist í mótvind þegar flogið er til baka og tefur því fyrir. Þrátt fyrir hraðametið var vélin of sein í Egilsstaði en fyrra flug hennar í dag var til Akureyrar og þar tafðist heimferðin vegna mótvinds.
Flugtími í bakaleiðinni frá Egilsstöðum til Reykjavíkur var síðan ein klukkustund og sjö mínútur þannig að farþegar höfðu nægan tíma til að njóta útsýnisins og þjónustunnar um borð. Flogið var lægra en venjulega til að vinna upp á móti vindinum.
Methafarnir við flugvélina á Egilsstöðum í dag. Frá vinstri: Stefán Bárðarson flugmaður, Sigrún Heiða Hilmarsdóttir flugfreyja og Elvar Þór Hjaltason flugstjóri.