Petra snýr aftur á svið

steina petraLeikverkið Petra eftir Brogan Davison, Pétur Ármannsson og Björn Leó Brynjarsson snýr aftur á svið í Tjarnarbíói 17. október. Leikhópurinn Dansaðu fyrir mig sem stendur að sýningunni sýndi verkið nýverið á leiklistarhátíðinni í Tampere við góðan orðstír en hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Verkið var frumsýnt á leiklistarhátíðinni LÓKAL í ágúst 2014.

Viðfang verksins er Petra Sveinsdóttir eða Steina-Petra eins og hún var gjarnan kölluð í lifanda lífi. Petra var þjóðþekkt en hún kom upp stærsta steinasafni í veröldinni í einkaeign við heimili sitt á Stöðvarfirði. Þegar hún var spurð hvort steinasöfnun hennar gæti hugsanlega komið hinu íslenska álfasamfélagi í uppnám sagði hún: "Ég held að þeir viti að fjölmargir steinar hverfa ofan í jörðina og munu aldrei líta dagsins ljós ef þeim er ekki bjargað".

Petra var langamma Péturs Ármannssonar, eins höfunda verksins og hefur hann búið til ásamt samverkafólki sínu hjartnæma, skrýtna og skemmtilega leiksýningu sem hefur að innblæstri leit þessarrar merku konu að horfnum munum sem eru færðir upp á yfirborðið.

Til að heiðra minningu Petru giftu Pétur og Brogan sig í steinasafni hennar sl. ágúst nokkrum dögum áður en þau flugu til Finnlands þar sem verkið var sýnt, eins og áður segir.

Einungis tvær sýningar eru fyrirhugaðar á Petru í Tjarnarbíói 17. og 30. október.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar