„Annað hvort skálað eða skilið í vor“: Margrét Guðjónsdóttir frá Seyðisfirði í yfirheyrslunni.
![maggy gauja 2015okt](/images/stories/news/folk/maggy_gauja_2015okt.jpg)
„Ég er þriggja barna móðir, formaður bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar og búkona í Gullabúinu ásamt Halldóru Malin snillingi.
Ég er með BA í sálfræði frá Háskóla Íslands og kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri. Ég var að kenna í grunnskólanum en hætti því um síðustu áramót því mér tókst að tæma tankinn og ákvað því að það væri kominn tími á ný ævintýri.
Þegar einar dyr lokast opnast aðrar og segja má að Ólafur Örn Pétursson, Skálanesbóndi og lífskúnstner hafi plantað því fræi sem nú er orðið að nýjasta verkefni fjölskyldunnar – uppgerð 100 ára gamals glæsihýsis við Lónið á Seyðisfirði. Við hjónaleysin, ásamt vel völdum heljarmönnum, munum nota veturinn í að útbúa nokkur glæsiherbergi sem vonandi verða klár til útleigu næsta sumar. Eitt er víst að það verður annað hvort skálað eða skilið í vor!
Fullt nafn: Margrét Guðjónsdóttir (alltaf bara Maggý).
Aldur: Fædd 1981, þeir geta reiknað sem það vilja.
Starf: Bæjarfulltrúi, verslunareigandi og verkstjóri/handlangari. Allt frekar illa borguð gigg.
Maki: Brynjar Skúlason, einkar myndarlegur og handlaginn. Mér finnst hann þó ekki alltaf fyndinn.
Börn: Kamilla Kara, Bjarki Nóel og Baldur Myrkvi, öll sérlega vel heppnuð miðað við aðstæður.
Hvað er í töskunni þinni? Í töskunni minni er önnur lítil taska full af puntudóti (var á árshátið SVN á laugardaginn, virkilega gaman, takk fyrir mig), pennar, hnetur, flugmiðiði til Reykjavíkur frá því að við hittum innanríkisráðherra og ræddum áframhaldandi rannsóknir á Fjarðarheiðargöngum. Það er ekkert hik á ráðherra hvað það varðar, enda samstaða allra sveitarfélaga á Austurlandi um verkefnið eins og fram kom á nýliðnu SSA þingi á Djúpavogi. Fjarðarheiðargöng verða voandi fljótt að veruleika enda næsti leggur í samtengingu fjarðanna á mið-Austurlandi við Hérað.
Hvert er uppáhalds lagið þitt? Ég festi mig ekki mikið í svona „uppáhalds eitthvað“. Annars finnst mér eitthvað sexý við lagið Good for you með Selenu Gomez og svo finnst mér All of me með John Legend yndis.
Trúir þú á líf eftir dauðann og með hvaða hætti þá? Það gerist eflaust eitthvað spennó, sjáum hvað setur.
Uppáhalds hönnuður? Enginn uppáhalds – fullt af sniðugu fólki út um allan heim!
Hvað eldar þú oft í viku? Alltof sjaldan, er mjög þakklát fyrir skólamötuneytið. Annars er ég mjög flink þegar ég tek mig til.
Nefndu þrennt sem þú átt alltaf í ísskápnum? Þessa dagana á ég alltaf egg, avakadó og jalapeno.
Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Þá allra fyrstu.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Heiðarleika! Má ég segja fleiri? Hugulsemi, nærgætni, brosmildi, örlæti, hjálpsemi og áreiðanleika.
Hver er þinn helsti kostur? Ákveðni.
Hver er þinn helsti ókostur? Ákveðni.
Hvernig er tónlistarsmekkurinn þinn? Flestir myndu kalla hann smekkleysu (sbr. svar að ofan). Elska hádramatýskar ballöður, t.d. Total eclipse of the heart, Céline Dion og alls konar ástar- og tilfinningadægurgaul. Get hlustað á alla tónlist sem ég get „sungið“ með.
Settir þú þér áramótaheit? Neibb, er þá allavega búin að gleyma því!
Hver er þín helsta fyrirmynd? Engin ein, það er svo margt gott í mörgum sem er sniðugt til eftirbreytni. Mamma og pabbi eru samt alltaf best.
Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Ég myndi auka jákvæðni heilt yfir línuna, held að það eitt myndi breyta ansi miklu á þessari jörð okkar.
Duldir hæfileikar? Get látið ýmsilegt gerast með brosinu einu saman.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði að verða heimsfræg leikkona eða sálfræðingur. Get ekki sungið svo ég fór í HÍ.
Ertu nammigrís? Ég er chockaholic í bata.
Uppáhalds litur? Hvítur og svartur.
Besta bíómynd allra tíma? Hún er ekki enn komin út.
Hvað ætlar þú að gera um helgina? Ég mun deila tímanum milli barna og vinnu. Við erum að flytja Gullabúið í nýtt húsnæði og vonandi getum við opnað það fjótlega.