Hápunkturinn að hita upp fyrir ræðu Vigdísar Finnbogadóttur
Hljómsveitin Eva heldur tónleikna í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði næstkomandi fimmtudag, þann 29. október og á Kaffi Láru á Seyðisfirði 30. október. Hljómsveitina skipa þær Sigríður Eir Zophaníasdóttir frá Hallormsstað og Vala Höskuldsdóttir frá Akureyri.Hljómsveitin Eva er popphljómsveit sem spilar kántrískotið femínískt pönk með þýðum og þjóðlegum undirtón. Stelpurnar eru þekktar fyrir töfrandi og líflega framkomu sem kemur áhorfendum sífellt á óvart, kitlar hláturtaugarnar og snertir hjörtun um leið.
Hvetja konur til þess að brjótast út úr hógværðinni
„Við erum dreifbýlisvargar og iðum því í skinninu og getum því ekki beðið eftir að sækja Austurlandið loksins heim," segir Sigríður Eir.
Við Vala, min besta vinkona og nánasti samstarfsfélagi stofnuðum Hljómsveitina Evu vegna þess að við höfðum báðar óstöðvandi þörf og löngun til þess að syngja og búa til tónlist.
Við höfðum báðar aðeins smakkað á klassísku söngnámi, en fundum okkur hvorugar í því og langaði að syngja meira frjálst, meira með hjartanu fremur en tækninni.
Ég lærði á fiðlu sem stelpa en kunni ekkert fyrir mér á gítar og þegar við stofnuðum hljómsveitina, kunni ég aðeins þrjú grip, sem við ákváðum að væri nóg. Vankunátta okkar í hljóðfæraleik varð okkur skapandi forsenda í stað hindrunar og útkoman á þá leið að við gátum meira í tónlist en við héldum.
Við höfum gert það að markmiði okkar að hvetja konur til þess að brjótast út úr hógværðinni og fullkomnunaráráttunni og „gera án þess að kunna" – vegna þess að ef þú bara gerir þó þú kunnir ekki þá muntu læra og yfirleitt kemur það í ljós að það sem þú hefur er nóg, aðeins þarf hugrekki til þess að nýta það.
Strákar eru miklu duglegri við þetta og hika ekki við að stofna hljómsveit eftir hljómsveit án þess að vera með neinar gráður eða stigspróf. Konur eru ragari við þetta og því langar okkur að breyta.
Tilgangur hljómsveitarinnar er að þora að tala út frá okkur sjálfum og okkar eigin reynsluheimi en einnig að styrkja þær raddir sem þurfa að hljóma í samfélaginu. Við viljum vera rödd minnihlutans og semja lög um hluti sem ekki hafa hljómað í tónum. Við viljum vera raddir hinna og hafa kjark til að vera einlægar og prívat og hafa húmor fyrir okkur sjálfum."
Hlutu tilnefningu til Grímuverðlaunanna
Fyrsta plata Hljómsveitarinnar Evu, Nóg til frammi, kom út fyrir síðustu jól. „Við höfum haldið ótal tónleika og tókum einnig að okkur að vera tónlistarstjórar í Gullna hliðinu sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar í janúar 2014 og fengum grímutilnefningu fyrir tónlistina sem við sömdum og fluttum í verkinu.
Hápunktur okkar var á dögunum þegar við hituðum upp fyrir ræðu Vigdísar Finnbogadóttur á ráðstefnu tengdum 100 ára kosningaréttarafmæli kvenna. Hún byrjaði ræðuna sína á því að segja að betri upphitun væri ekki hægt að fá og afsakaði það að hún gæti aldrei orðið eins fyndin og sniðug og Hljómsveitin Eva.
En núna erum við á leiðinni austur og það er mér mikil gleði. Ég hlakka til að sækja Austurlandið heim og vonandi að spila fyrir gamla og góða vini og kunningja, sem og alla hina.
Við byrjum ferðina á því að spila í einka samkvæmi í Berufirði og höldum svo tónleika á Eskifirði í Tónlistarmiðstöð Austurlands 29. október og höldum svo niður á Seyðisfjörð 30. október og spilum á Kaffi Láru. Við ætlum að spila lögin okkar af Nóg til frammi og svo eigum við tvö ný lög sem við tökum auðvitað líka."