Nýju fræðsluverkefni hleypt af stokkunum
![fraedsluverkefni skaftfell](/images/stories/news/2015/fraedsluverkefni_skaftfell.jpg)
Eyborg og Eygló eru listamenn af mismunandi kynslóðum en verk beggja eru óhlutbundin, abstrakt. Miðill Eyborgar er fyrst og fremst málverkið á meðan þrívíddin er ríkjandi í verkum Eyglóar.
Sýningin teflir fram tveim bálkum verka sem fást við eðli abstrakt myndbyggingar og gefa til kynna með hvaða leiðum form öðlast merkingu og vægi. Með því að setja verk Eyborgar í samhengi við verk Eyglóar kemur í ljós hve viðfangsefni hinnar fyrrnefndu eru enn viðeigandi hjá starfandi listamönnum í dag.
Markvisst fræðslustarf fyrir grunnskólabörn
Í tengslum við sýninguna verður hleypt af stokkunum sjötta fræðsluverkefnið sem Skaftfell stendur fyrir og ber heitið Skynjunarstofa um liti og form.
Síðan 2007 hefur miðstöðin staðið fyrir markvissu fræðslustarfi sniðið að þörfum grunnskólanna á Austurlandi og hefur boðið upp á alls fimm verkefni sem fjalla um myndlist með einum eða öðrum hætti til að efla listgreinakennslu í fjórðungnum.
Að þessu sinni var myndlistarkonan Karlotta Blöndal fengin til að hanna og stýra farandlistasmiðjunni Skynjunarstofa um liti og form. Fyrstu tvær vikurnar í nóvember mun Karlotta fara á milli grunnskóla á Austurlandi, alla leið frá Vopnarfirði til Djúpavogs, til að kenna smiðjuna.
Verkefnið gefur nemendum innsýn inn í myndlist Eyglóar og Eyborgar og fá þau um leið að kynnast aðferðum við að rannsaka eiginleika lita og forma. Gerðar verða tilraunir með litablöndun þar sem bæði verður notast við málningu og ljós. Skoðuð verða ströng geometrísk form í samspili við lífrænt form trjágreina og hvernig hreyfing hefur áhrif á upplifun okkar á formum og litum.
Listsmiðjan stendur grunnskólunum til boða þeim að kostnaðarlausu og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Austurlands og Barnavinafélaginu Sumargjöf.