„Minnist hennar sem kraftmikils húmorista með brennandi lífsmóð"
![steinapetra syning](/images/stories/news/2015/steinapetra_syning.jpg)
Verkið er eftir Pétur Ármannsson, Brogan Davisonog Björn Leó Brynjarsson, en Petra var langamma Péturs og hefur hann ásamt samverkafólki sínu búið til hjartnæma, skrýtna og skemmtilega leiksýningu sem hefur að innblæstri leit þessarrar merku konu að horfnum munum sem eru færðir upp á yfirborðið.
Það er leikhópurinn Dansaðu fyrir mig sem stendur að sýningunni og hann sýndi verkið nýverið á leiklistarhátíðinni í Tampere við góðan orðstír, en hátíðin er sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndum. Verkið var frumsýnt á leiklistarhátíðinni Lókal í ágúst 2014.
„Það var mjög krefjandi að skapa þessa sýningu þar sem efniviðurinn stendur svo nærri hjarta," segir Pétur í samtali við Austurfrétt. „Við þurftum að passa okkur á falla ekki í væmni og volæði heldur reyna frekar að fanga anda langömmu, en ég minnist hennar sem kraftmikils húmorista með brennandi lífsmóð."
Pétur segir part af vinnunni hafa verið að endurheimsækja æskuminningarnar sem hann var flestum búinn að gleyma. „Ég man helst eftir reykfylltu eldhúsinu í Steinasafninu á meðan langamma steikti skonsur handa fjölskyldunni."