Séra Þorgeir: Páskasagan krefst þess að við tökum trúarstökkið

egilsstadakirkja.jpgSagan um upprisu Krists og páskaboðskapurinn gera þá kröfu til mannlegrar hugsunar að hún fari úr kaldri rökhyggju út í gleði trúar og vonar. Þessi von fær fólk til að safnast saman um víðan heim og halda páska.

   Þetta sagði Þorgeir Arason, prestur í Múlaprófastsdæmi í páskapredikun sinni í Egilsstaðakirkju í gær. Þar lagði hann út frá sögunni um Kardimommubæinn sem Leikfélag Fljótsdalshéraðs sýnir um þessar myndir.

Draumsýnina sem sagt er frá í leikritinu bar hann saman við söguna um upprisu Jesú. Í þeirri sögu koma menn alltaf að spurningunni um hvernig menn viti að Jesús hafi í raun risið upp frá dauðum.

„Við lendum á þeim stað þar sem páskaboðskapurinn gerir þá kröfu til okkar að við tökum trúarstökkið; stökkvum frá kaldri rökhyggjunni út í gleði trúar og vonar, tökum flugið frá takmörkum mannlegrar hugsunar út í gleði Guðs ríkisins og fögnum í hjörtum okkar yfir því að Kristur er upprisinn.“

Líkt í sögunni um Kardimommubæinn virðist það sem á að hafa gerst á páskum of gott til að vera satt.

„Við söfnumst hér saman um ritningartexta og frásagnir sem flytja okkur þann boðskap, sem mannleg reynsla segir okkur að hljóti að vera fjarri veruleikanum. En sá er munurinn á gleðifréttum páskanna og Kardimommubæjarins, að páskaboðskapurinn byggist á orði Guðs.

Frásögnin um upprisu Jesú Krists hefur ekki orðið til í hugarheimi eða á teikniborði manna. Hún er orð þess, sem hefur allt vald á himni og á jörðu.“

Það er þessi trú um von sem sameinar kristið fólk um páska. „Þess vegna safnast kristið fólk saman um víða veröld á þessum helgasta morgni ársins, í dag eins og það hefur gert í gegnum aldirnar.

Þess vegna hljóma orð trúarinnar á þessum morgni um allan heim, eftir því sem sólarupprásin færist yfir jarðarkringluna, vekur fylgjendur Krists og kallar til hátíðar þar sem þau hljóma, þessi fagnaðarorð:

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Hallelúja.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar