Sigrún Birna: Grænbláa naglalakkið lagði grunninn að sigrinum
Frábær andi hefur ríkt í Útsvarsliði Fjarðabyggðar í vetur sem skilaði sér í sigri á liði Reykjavíkur í úrslitum keppninnar í gærkvöldi. Allir hafa sína hjátrú og í tilfelli Sigrúnar Birnu Björnsdóttur felst hún í naglalakkinu.Þegar haustið hófst var Sigrún Birna þó ekki í liðinu. Sætið var ætlað Ingibjörgu Þórðardóttur úr Neskaupstað. Eftir að hún gaf kost sér í forvali Vinstri grænna var henni skipt úr liðinu í samræmi við reglur keppninnar.
„Ég fékk símtal í haust þar sem ég var beðin um að koma inn í liði því Ingibjörg ákvað að skvera sér í framboð. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar ég vissi hverjir voru í liðinu.“
Það voru Jón Svanur Jóhannsson og Kjartan Bragi Valgeirsson. Sigrún og Kjartan höfðu keppt saman haustið 2008 en þá var Pjetur St. Arason með þeim í liðinu.
„Þar töpuðum við naumlega á spurningu sem tengdist lotukerfinu. Gleymi því aldrei að eðalgastegundirnar í lotukerfinu eru sex eftir það ævintýri .“
Í lok þáttarins í gærkvöldi var haft eftir Sigrúni Birnu að hún hefði í allan vetur haft trú á sigri liðsins í keppninni en liðsfélagar hennar ekki verið jafn trúaðir á það.
Í samtali við Austurfrétt í dag sagðist Sigrún „allt frá fyrstu æfingu“ haft „góða tilfinningu“ fyrir keppninni.
„Strákarnir eru svo eldklárir, báðir spurningakeppnagaurar í grunninn og með áhuga á öllu mögulegu og ómögulegu og mikið keppnisskap. Ég hef svo dregið þá að landi með svona eitt og annað, einkum barnaefni og -bækur, en mest þó í að peppa þá upp og sannfæra þá um að við áttum alveg jafn mikinn séns og önnur lið.“
Við hafi bæst hvatning frá fólkinu í kring, einkum þegar á leið. Ekki má heldur gleyma hjátrúnni sem virðist rík í hvers konar keppni.
„Við Jónsi vorum afar hjátrúarfull. Fyrir fyrstu keppni fór ég með Gerði systur minni í búðir og keypti grænblátt naglalakk. Ég notaði það í öllum keppnum og það, ásamt einstökum stuðningi, lagði grunninn að þessu ölu saman.
Jú og svo fengum við líka fullt af spurningum sem við vissum svörin við!“