Níræð og gefur út þriðju ljóðabókina

hallveig gudjonsdottir ljodabok 0003Hallveig Guðjónsdóttir frá Heiðarseli sendi í vikunni frá sér sína þriðju ljóðabók. Hún fagnar níutíu ára afmæli sínu í dag og segir það alltaf hafa verið drauminn að gefa út bækur.

„Ég var alltaf að gefa út litlar bækur sem smástelpa. Þetta hefur alltaf verið draumurinn minn,“ segir Hallveig.

Hún fékk fyrsta eintak bókarinnar Molar – frásagnir og ljóð afhent á fimmtudag. Útgáfan gekk fljótt fyrir sig en bókin var aðeins viku í vinnslu og prentun hjá Héraðsprenti á Egilsstöðum.

„Ég var sex ára gömul þegar ég samdi fyrsta ljóðið mitt. Ég spurði mömmu og Einar bróður hvernig þeim þætti það. Einar las það, hugsaði sig um og sagði: „Ja, það er fínt.“ Mér fannst það mikið hól.“

Fyrsta ljóðabók Hallveigar, Stiklað á steinum, kom út árið 1990 og árið 2007 fylgdi svo Tíbráin titrar – kvæði og frásagnir.

Nýjasta bókin inniheldur vísur, kvæði, prósaljóð og stuttar frásagnir sem bera keim af lífshlaupi hennar, sérstaklega lífinu í sveitinni.

„Ég orti alltaf mest í sveitinni en lítið meðan ég bjó í borginni. Þá var ég upptekin við að skemmta mér og fleira. Sveitin hefur haft mestu áhrifin á mig.“

Mynd: Þráinn Skarphéðinsson, prentsmiðjustjóri, afhendir Hallveigu fyrsta eintakið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar