BBC fjallar um fjörðinn með nafnið sem ekki er hægt að bera fram: Say-this-fjur-ther
Seyðisfjörður og Austfirðir eru til umfjöllunar í nýlegum ferðavísi á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Staðnum er hrósað fyrir fagra náttúru og marglituð timburhúsin þótt dálkahöfundi þyki nær ómögulegt að bera heiti staðarins fram.„Fyrir ferðalanga er þetta óneitanlega mikilfengleg fyrstu kynni af landinu,“ segir í pistlinum þar sem lagt er út frá komu farþegaferjunnar og lundans til Seyðisfjarðar í apríl.
„Marglituðum timburhúsunum er skýlt á magnþrunginn máta af fjöllum með snævi þöktum tinda og fossandi vötnum. Leyfðu þessu umhverfi að draga huga þinn frá nafni bæjarins sem eiginlega er ekki hægt að bera fram: „say-this-fjur-ther“.“
Ferðalangar eru hvattir til að staldra nokkra daga við í bænum. Umhverfið sé ekki aðeins stórkostleg heldur sé þar í boði kjörin blanda af afþreyingu innan dyra sem utan.
Tónleikar í Bláu kirkjunni séu til dæmis kjörin skemmtun kvöldið fyrir brottför og ferð út á Skálanes upplifun sem fáir gleymi.
Greinarhöfundur fer einnig víðar um Austfirði. Hann bendir á að hægt sé að horfa á enn meiri lunda á Borgarfirði og fyrir þá sem vilji komast í burtu frá heimsins glaumi sé Mjóifjörður kjörinn áfangastaður.
Egilsstaðir eru kynntir til sögunnar sem krossgötur svæðisins og að þar í grenndinni hafi sést til Lagarfljótsormsins, hliðstæðu Loch Ness skrímslisins.
Lesa umfjöllun BBC í heild sinni.