100 ára saga KHB kemur út í haust
Í haust verður gefin út 100 ára saga Kaupfélags Héraðsbúa (KHB). Jón Kristjánsson, fyrrum alþingismaður og ráðherra, ritar sögu félagsins en hann vann um áratuga skeið hjá Kaupfélaginu áður en hann settist á þing.Kaupfélag Héraðsbúa var stofnað 1909 og til stóð að 100 ára saga þess kæmi út á aldarafmælinu 2009. Af því varð ekki þar sem efnahagshrunið leiddi til nauðarsamninga hjá KHB eins og mörgum fleiri aðilum.
Umfangsmikil starfsemi og verslunarrekstur, sem félagið hafði staðið fyrir, fór í hendur annarra en félaginu sjálfu var haldið á lífi og stendur það m.a. að útgáfu sögunnar í samvinnu við Bókaútgáfuna Hóla.
Saga KHB er ekki einungis saga samvinnufélags heldur saga austfirsks samfélags og atvinnulífs í rúm 100 ár. KHB var einn stærsti atvinnurekandi á Austurlandi í áratugi með umfangsmikla starfsemi bæði á Héraði og fjörðunum.
Í bókinni er rakin stofnun, uppbygging, þrengingar, þróun og endalok þessa veldis í samhengi við breytingar samfélagsins á landsvísu. Hundruð ljósmynda prýða verkið sem verður í stóru broti.
Bókaútgáfan Hólar gefur bókina út og geta áhugasamir gerst áskrifendur að henni í síma 587-2619 eða í netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. Nöfn áskrifenda munu birtast aftast í bókinni, nema annars sé óskað.