SÚN gefur Nesskóla 40 spjaldtölvur

NesskoliSamvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN) gaf Nesskóla nýverið 40 iPad4 spjaldtölvur ásamt hulstrum. Spjaldtölvutæknin verður sífellt fyrirferðameiri í kennslu þar sem æ fleiri forrit koma út á því formi.

SÚN hefur stutt myndarlega við bakið á skólanum síðustu ár. Það gaf til að mynda skjávarpa og hátalara í allar umsjónarstofur, auk sérkennslustofu, á síðasta ári.

„Þetta hefur gjörbreytt vinnuaðstæðum kennara og aukið fjölbreytni í kennsluaðferðum, nemendum til bóta. Núna ári seinna, hafa skjávarparnir sannað gildi sitt og er mikil ánægja hjá starfsfólki skólans sem hefur nýtt þá í kennslu,“ segir Marías Ben. Kristjánsson, skólastjóri.

„Það þarf ekki að benda á hversu mikils virði svona gjafir eru skólanum, því fé til tækjakaupa hefur ekki verið af þessari stærðargráðu undanfarin ár. Með þessum stuðningi er skólanum gert kleift að fylgja þróun og nýjustu tækni sem verið er að kynna í skólum í dag.

Flestir eru sammála um að spjaldtölvutæknin á eftir að nýtast nemendum, ekki hvað síst nemendum í sérkennslu. Tæknin auðveldar nám, gerir það gagnvirkara og nemandinn fær strax svörun við verkefnum.

Það var því með miklu þakklæti sem hópur starfsmanna Nesskóla tók við þessari góðu gjöf frá SÚN.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar