Sjómannadagsblað Austurlands 2013 komið út

Sjomannadagsblad Austurlands 2013Sjómannadagsblað Austurlands er komið út og er það 19. árgangur blaðsins sem líkt og undanfarin ár er um 90 blaðsíður að stærð. Hátt á annað hundrað nýrra og gamalla ljósmynda prýða blaðið og eru efnistökin vítt og breitt af Austurlandi.

Á meðal efnis í blaðinu í ár má nefna frásögn Ívars Þórarinssonar, frá Klöpp, þegar Snæfugl SU fórst fyrir 50 árum en Ívar var yngstur í áhöfn bátsins, aðeins 16 ára gamall.

Magni Kristjánsson skipstjóri skrifar annars vegar um gamlar miðalýsingar og hins vegar um góðlátlega sjómannshrekki, sem löngum hafa tíðkast, og Gísli Gíslason fjallar um strand breska togarans Macleay sem strandaði í Mjóafirði snemma vetrar 1934.

Albert Kemp lýsir í máli og myndum vetrarvertíðinni 1968 er hann var á Hoffellinu frá Fáskrúðsfirði og Jóhanna K. Malmquist og Sigríður M. Guðjónsdóttir segja frá sjómannsreynslu sinni árið 1996.

Janne Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls í Reyðarfirði, rifjar upp þegar hún vann í fiski á Eskifirði 1988 og Ingólfur Arnarson Eide skrifar um síldarárin á Fáskrúðsfirði.

Sjómannadagstertan, árvisst ljúfmeti hér eftir, er kynnt til sögunnar, Guðni Ölversson, frá Eskifirði, minnist fjögurra skipstjóra sem fallnir eru frá og Þórarinn Smári, frá Norðfirði, segir frá því er sögufrægum bát hans hvolfdi árið 1974.

Ýmislegt fleira er að finna í Sjómannadagsblaði Austurlands sem dreift var um Austurland í gær. Þeir sem ekki búa á Austurlandi geta nálgast blaðið í Grandakaffi í Reykjavík eða pantað á vefnum www.sjoaust.is.

Ritstjóri Sjómannadagsblaðs Austurlands er sem fyrr Kristján J. Kristjánsson, frá Sjónarhóli á Norðfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar