Tæplega fimmtíu stúdentar útskrifuðust úr ME: Tilfinningin er að við skiptum öll máli

me utskrift13 basia webMenntaskólinn á Egilsstöðum útskrifaði í vor 48 nemendur og í fyrsta sinn stóran hluta samkvæmt nýrri námskrá sem tekin var upp haustið 2011. Nýstúdent segir fámennið gefa einstaklingunum tækifæri til að blómstra.

„Ég er svo ánægð að geta sagt að skólinn minn hafi gefið mér allt það besta sem ég gat beðið um og meira en það. Það er alls ekki sjálfgefið en vegna þess hversu kennararnir láta sér annt um nemendur og vegna þess hversu lítill skólinn okkar er þá fáum við þá tilfinningu að við skiptum öll máli,“ sagði Vigdís Diljá Óskarsdóttir sem flutti ræðu fyrir hönd nýstúdenta.

ME brautskráði 33 stúdenta, fjórtán nemendur af skrifstofubraut og einn af starfsbraut. Bestan árangur á stúdentsprófi átti Guðrún Svanhvít Michelsen frá Fáskrúðsfirði sem lauk námi á þremur árum.

„Þegar við hugsum til baka til þessa góða tíma sem nú eru að baki, þá finnst mér ólíklegt að nokkur muni rifja það upp hvert gildi x-ins var í jöfnunni sem þeir voru svo lengi að reikna, eða hverjir það voru sem brunnu inni í brennunni á Bergþórshvoli.

Það sem við munum frekar er með hverjum við lærðum fyrir Njáluprófið, hver hjálpaði okkur með jöfnuna og við munum þann góða anda sem ríkir innan skólans.“

Vigdís telur að félagslífið verið það sem hún sakni helst úr skólanum. „Þar fáum við tækifæri til þess að kynnast krökkunum í skólanum, æfa okkur í mannlegum samskiptum og jafnvel uppgvöta hæfileika sem við vissum ekki að við byggjum yfir.“

En þótt framhaldsskólinn sé að baki hlakkar nýstúdentinn til að takast á við næstu verkefni. „Þó svo að þessi ár hafi verið þau bestu hingað til ætla ég að trúa því að það sé bara betra framundan.“

Mynd: Myndsmiðjan/Basia

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar