Sól og blíða á 17. júní hátíðahöldum í Neskaupstað: Myndir
Veðrið lék við bæjarbúa á 17. júní hátíðarhöldum í Neskaupstað þar sem aðalhátíðarhöldin voru innan Fjarðabyggðar í ár. Gert er ráð fyrir að hátíðarhöld á þjóðhátíðardeginum ferðist á milli byggðarkjarna í sveitarfélaginu á næstu árum.Dagskráin hófst á skrúðgöngu en gengið var frá íþróttahúsinu að fótboltavellinum þar sem aðaldagskráin fór fram.
Fjallkonan kom ríðandi á hestbaki og flutti ljóð. Þetta árið var það Dagný Ásta Rúnarsdóttir sem fékk þann heiður.
Lúðrasveit Norðfjarðar spilaði einnig nokkur vel valin lög ásamt því að leikskólakór Sólvallar steig á svið og söng 17. júní lagið.
Leikfélag Norðfjarðar lét sig auðvitað ekki vanta og persónur úr leikritinu Allt í plati skemmtu krökkunum en Níels api komst ekki þar sem hann var á apaættarmóti.
Leikfélag VA, Djúpið, tók einnig þátt í skemmtuninni og sá um andlitsmálningu fyrir börnin.