Jazzhátíðin hefst á miðvikudag: Haldið upp á 25 ára afmæli

jazz2Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi hefst á miðvikudag. Hún er elsta jazzhátíð landsins, fyrst haldin árið 1988 og er því 25 ára í ár. Dagskráin í ár er fjölbreytt að vanda en þar má finna allt frá balkanskri þjóðlagatónlist yfir í rokk og ról.

Hátíðin hefst á miðvikudag með opnunartónleikum í Herðubreið Seyðisfirði en þá leikur hljómsveitin MeðLæti! ásamt Einari Braga og ungu tónlistarfólki af Austurlandi.

Á fimmtudag liggur leiðin svo í Blúskjallarann Neskaupstað og mun Steinar leika skemmtilegan kokteil af jazz og funktónlist af ýmstum toga undir stjórn Steinars Sigurðssonar saxófónleikara. Hljómsveitina skipa þeir Einar Scheving, Þorgeir Jóns og Agnar Már.

Á föstudag verður boðið upp á tónleika á Cafe Nielsen á Egilsstöðum. Þar leikur MoR, dúett þeirra Róberts Þórhallssonar bassaleikara og Margrétar Eir söngkonu auk Garðars Eðvaldssonar saxófónleikara. Aðgangur að þessum tónleikum er ókeypis og hefjast þeir klukkan 17.

Um kvöldið liggur leiðin í Valaskjálf en þar leikur MoR og austfirska rokksveitin Coney Island Babies.

Á laugardag eru aftur tónleikar á Nielsen klukkan 17 en þá leikur hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans balkanska þjóðlagatónlist auk þess sem Skúli mennski hitar upp fyrir tónleika kvöldsins í Valaskjálf. Þar koma fram Hljómsveit Skúla Mennska og Robert and the Roommate. Þessar ólíku hljómsveitir leika sitt efni en sú síðarnefnda gaf nýverið út samnefndan disk sem hefur hlotið frábæra dóma.

Allar nánari upplýsingar eru á www.jea.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar