Friðarhlauparar á ferð um Austurland
Sautján manna hópur frá ýmsum þjóðlöndum hleypur nú um Ísland með logandi friðarkyndil. Hópurinn er þessa dagana á ferð um Austurland og hefur skipt sér í tvo minni hópa til að geta komið við í sem flestum byggðarlögum.Hóparnir lögðu af stað frá Höfn í morgun. Annar hópurinn fór fjarðaleiðina og kom við á Djúpavogi og Breiðdalsvík en hinn fór um Öxi til Egilsstaða.
Á öllum stöðum hafa heimakrakkar hlaupið með kyndilberum síðasta spölinn. Á Egilsstöðum voru það iðkendur úr frjálsíþróttadeild Hattar.
Sömuleiðs hefur verið plantað friðartré á stöðunum. Tekið var á móti hlaupurunum og tréð gróðursett í Skjólgarði sem er á bakvið pósthúsið á Egilsstöðum.
Fjarðahópurinn heldur áfram á morgun í gegnum Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Reyðarfjörð og út í Neskaupstað en Héraðshópurinn fer á Seyðisfjörð.
Föstudagurinn verður sá síðasti á Austurlandi. Annar hópurinn hleypur upp á Möðrudalsöræfi en hinn á Vopnafjörð.
Friðarhlaupið var fyrst hlaupið árið 1987. Það er vanalega hlaupið hérlendis á tveggja ára fresti en umfangið er mismikið. Hlaupið í ár er óvenju veglegt því í raun er verið að fagna 25 ára afmæli þess.
Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnist á ensku, er alþjóðlegt kyndilboðhlaup sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Það er kennt við stofnandann, indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy.
Mikil áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna, sem er skipulögð í samstarfi við íþrótta- og ungmennahreyfingar á hverjum stað.
Þetta verður í 20. sinn sem hlaupið er á Íslandi. Plantað verður um 70 friðartrjám víðsvegar um land í tengslum við Friðarhlaupið.
Hlaupið er með friðarkyndilinn á milli byggða til að gefa öllum landsmönnum tækifæri á að taka þátt í viðburði sem hefur að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis.