Dægurlagadraumar á ferð um Austfirði: Hvetja til hópsiglingar til Mjóafjarðar

daegurlagadraumar webNæstu tvær helgar mun hljómsveitin Dægurlagadraumar troða upp með tilheyrandi stemningu og huggulegheitum á þremur stöðum á Austurlandi. Mjóifjörður verður fyrsti viðkomustaðurinn í ferðinni.

Laugardaginn 27. júlí, kl. 20:00 verða tónleikar í Sólbrekku í Mjóafirði þar sem seldir verða mjófirskir smáréttir meðan á tónleikum stendur. Í ljósi þess að siglingar eru í algleymingi mun hljómsveitin sigla frá Norðfirði til Mjóafjarðar (í boði Fjarðabyggðar) með allt sitt hafurtask.

Gestir sem eiga báta og búa í nærliggjandi fjörðum eru hvattir til að gera hið sama ef veður leyfir þó vissulega sé einnig gaman að keyra ofan í fjörðinn. Ókeypis er aðeins inn á þessa tónleika í tónleikaröðinni, en aðgangur á hina tónleikana er 2.000 kr., 1.000 kr. fyrir eldri borgara og ókeypis fyrir yngri en 16 ára.

Aðrir tónleikar verða haldnir sunnudaginn 28. júlí í fallega gamla bíósalnum í Herðubreið á Seyðisfirði og þar mun Hótel Aldan sjá um sölu á kaffi og gamaldags bakkelsi meðan á tónleikunum stendur.

Þriðju og síðustu tónleikarnir verða haldnir 4. ágúst í Neskaupstað og eru hluti af dagskrá Neistaflugs. Leikið verður í hinum rómaða Blúskjallara en einnig stendur til að hljómsveitin flytji einhver lög á bryggjunni fyrr um daginn.

Flest lögin sem flutt verða eru vel þekkt og vinsæl dægurlög. Þemað í ár eru lög Sigfúsar Halldórssonar og söngdansar Jóns Múla og Jónasar Árnasona en einnig er skotið inn á milli öðrum íslenskum og erlendum slögurum sem Ellý, Vilhjálmur, Haukur Morthens og fleiri gerðu svo fræg hér um árið. Enda af nógu eyrnakonfekti að taka þegar dægurlög eru annars vegar.

Engar miðapantanir eru mögulegar fyrirfram og enginn posi verður á staðnum þannig að gestir eru hvattir til að mæta snemma með seðla.

Tónleikarnir eru styrktir af Menningarráði Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar