Lúðrasveit Þorlákshafnar í Fjarðarborg: Næstum árs gamall draumur að rætast
Um fimmtíu manns stóðu á sviðinu í einu í Fjarðarborg á Borgarfirði eystri í gærkvöldi þegar Jónas Sigurðsson kom þar fram ásamt Lúðrasveit Þorlákshafnar.„Þetta var meiriháttar gaman, næstum ársgamall draumur að rætast,“ sagði Ása Berglind Hjálmarsdóttir, trompetleikari, í samtali við Austurfrétt eftir tónleikana í gær.
Haldnir voru tvennir tónleikar þar sem mikil ásókn var í miða eftir að þeir voru fyrst auglýstir þannig að uppselt varð á skömmum tíma. Fullt var á báða tónleikana í gærkvöldi.
Síðasta haust gaf Jónas út sína þriðju sólóplötu, Þar sem himininn ber við haf og hélt útgáfutónleika með stuðningi lúðrasveitarinnar í heimabæ sínum Þorlákshöfn. Í gærkvöldi voru útgáfutónleikarnir endurteknir á Borgarfirði.
Meðlimir lúðrasveitarinnar lögðu á sig mikið ferðalag til að geta tekið þátt í tónleikunum. „Flestir gerðu ferðalag úr þessu, komu á einkabílum á mánudag eða þriðjudag og verða fram yfir Bræðsluhelgina,“ segir Ása.
Hún viðurkennir að það hafi reynt á að spila tvenna tónleika á fimm klukkutímum. „Það er pínu krefjandi en þetta er svo gaman að það fleytir manni áfram.“
Þegar mest lét stóðu fimmtíu manns á sviðinu í félagsheimili Borgfirðinga í einu. „Það var geggjað að standa þarna uppi. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni.“
Þrátt fyrir fjöldann segir Ása að rúmt hafi verið á sviðinu. „Við vorum búin að búa okkur undir lítið svið en strákarnir hérna voru búnir að byggja það upp með pöllum þannig að það var mikið meira en nóg pláss. Við fengum eiginlega víðáttubrjálæði.“
Segja má að Bræðsluhelgin sé orðin að Bræðsluvikum með viðburðum á hverju kvöldi vikunnar. Aðaltónleikarnir verða þó annað kvöld en þar koma fram Mannakorn, Bjartmar Guðlaugsson, Ásgeir Trausti og John Grant.