Aldrei fleiri gestir á LungA: Myndir
Aldrei hafa fleiri gestir sótt listahátíðina LungA en í ár. Skipuleggjendur eru ánægðir með hvernig til tókst að þessu sinni en hátíðin var haldin í síðustu viku.„Orkan í smiðjunum og á hátíðinni allri var sérstaklega góð í ár og mátt sjá gleði, ást og hamingju svífa yfir vötnum allt fram á sunnudagsmorgun,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, einn skipuleggjenda.
Listasmiðjur hátíðarinnar hófust mánudaginn 14. júlí og hátíðinni lauk með uppskeruhátíð og stórtónleikum á laugardegi. Rúmlega 100 þátttakendur, víða að úr heiminum sóttu smiðjurnar að þessu sinni.
Á tónleikana, sem að þessu sinni voru haldnir úti við Norðursíld, seldust rúmlega 1200 miðar, sem er met og umferð til Seyðisfjarðar var mikil alla vikuna.
Diskótek í hádeginu á fimmtudeginum er sá viðburður sem stendur upp úr að mati Bjartar en þátttakendur og bæjarbúar dönsuðu og borðuðu saman í Herðubreið. Þá var frábær aðsókn á listagöngu um Seyðisfjörð og hönnunarsýningu LungA.
Myndir: LungA/Alisa: Reykjavík Grapevine