Litla ljóðahátíðin í Norðausturríki: Minna lítil en nokkru sinni fyrr
Litla ljóðahátíðin sem siglt hefur undir merkjum Eyjafjarðar síðustu fjögur ár hefur nú tekið á sig rögg og breiðir boðskapinn út um landið. Hátíðin í ár fer fram á sama tíma á Egilsstöðum og Akureyri og er orðið að stærðarinnar samvinnuverkefni austan- og norðanmanna. Hátíðin, sem hingað til hefur eingöngu verið haldin á Akureyri, fer nú í fyrsta skipti fram á Héraði.Á hátíðinni í ár koma meðal annarra fram skáldin Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón, Einar Már Guðmundsson, Ingunn Snædal, Sigurður Ingólfsson, Kristín Laufey Jónsdóttir og Gréta Kristín Ómarsdóttir.
Hátíðin hefst á ljóðagöngu í Hallormsstaðarskógi fimmtudaginn 19. september kl. 20 þar sem boðið verður upp á hefðbundna ljóðadagskrá og ketilkaffi fyrir gesti og umfram allt gangandi.
Föstudagskvöldið 20. september verður svo upplestur í Sláturhúsinu á Egilsstöðum kl. 20 þar sem fram koma Sigurbjörg Þrastardóttir, Sjón, Einar Már Guðmundsson, Ingunn Snædal og Kristín Laufey Jónsdóttir. Um daginn mun Einar Már einnig lesa úr skáldverkum sínum á Icelandairhótel Héraði kl. 17:00
Daginn eftir fer hersingin til Akureyrar með viðkomu á Biskupshálsi á Fjöllum þar sem fer fram sérstakur ljóðagjörningur til minningar um Kristján Jónsson fjallaskáld. Hátíðinni verður síðan framhaldið á Akureyri.
Ljóðaunnendur á Norður- og Austurlandi eiga því von á góðu í ár. Enda er það ekki á hverjum degi sem Litl ljóða hámerin og Hási Kisi leiða saman hesta sín og bjóða til hátíðar.
Þessi árvissa ljóðahátíð er nú haldin í fimmta skipti en mörg af fremstu skáldum landsins hafa komið fram á hátíðinni undanfarin ár. Hátíðin býður sem endranær upp á upplestur fyrir áhugasama Eyfirðinga – og nú einnig Héraðsbúa - og ljóðakvöld sem sýna þverskurð af fjölbreyttum kveðskap samtímaskálda.