Frystihúsi breytt í samkomusal fyrir Herrakvöld: Öll helstu leiktæki karlmanna til sýnis
Hárstofa Sigríðar stendur fyrir Herrakvöldi í gamla frystihúsinu á Reyðarfirði á föstudaginn kemur. Eigandinn segir hugmyndin að kvöldin hafi kviknað að loknu vel lukkuðu konukvöldi. Spennandi verði að sjá hvort karlakvöldið toppi það.„Hugmyndin kviknaði eftir konukvöld sem við héldum 1. mars síðastliðinn,“ segir Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir sem rekur hárstofuna.
„Við vitum ekkert hvað það mæta margir gestir. Það mættu um 200 konur á konukvöldið og nú er bara að vita hvort karlmennirnir toppi það.“
Í vikunni hafa staðið yfir framkvæmdir í gamla frystihúsinu til að breyta því í sýningarsal. Sigríður segir að til sýnis verði „öll helstu leiktæki karlmanna, jeppar, snjósleðar, fatnaður fyrir útivistina, mótorhjól og starfsemi ýmissa klúbba verður kynnt.“
Meðal skemmtiatriða er frumsýning á landsbyggðinni á 2014 árgerðinni af Arctic Cat vélsleðanum en heiðursgestur kvöldsins er Ólafur Bragi Jónsson, nýkrýndur heimsmeistari í forfæru.