Bandarískur þingmaður naut sumarsins á Austurlandi
Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Alan Grayson eyddi hluta af sumarfríi sínu á Austfjörðum. Talsmaður þingmannsins segir Ísland eftirlætis sumarleyfisstað hans.„Þingmaðurinn hefur heimsótt hvert einasta ríki heims en honum finnst hvergi betra að vera í fríi með fjölskyldunni heldur en á Íslandi,“ segir talsmaður þingmannsins í svari við fyrirspurn Austurfréttar.
„Í heimsókn sinni til Austfjarða höfðu þingmaðurinn og fjölskylda hans mest gaman af því að fara á hestbak,“ var svarið við fyrirspurn Austurfréttar hvað fjölskyldunni hefði þótt áhugaverðast við Austurland.
Jafnframt fengust þær upplýsingar að þingmannsfjölskyldan hefði á Suðurlandi haft sérstaka ánægju af ferð um Jökulsárlón og upp á Vatnajökul á snjósleðum. Eins hefði ferð um Mývatn fyrir tveimur árum þótt einstök.
Grayson og kona hans, Lolita, eiga saman fimm börn. Þau búa í Orlando og hann situr á þingi fyrir Demókrata níunda kjördæmi Flórída.
Hann starfaði sem lögmaður áður en hann settist á þing og sérhæfði sig meðal annars í að verja svokallaða flautublásara en þeir koma á framfæri upplýsingum um misgjörðir stjórnvalda eða fyrirtækja.
Grayson er annálaður gagnrýnandi stríðsreksturs Bandaríkjanna í Afganistan og Írak. Heimsóknin í sumar var hans sjötta til Íslands.