Rúm hálf milljón til góðgerðarfélaga af herrakvöldi – Myndir
Vel á annað hundrað gestir mættu á herrakvöld sem haldið var í gamla frystihúsinu á Reyðarfirði í síðustu viku. Yfir hálf milljón króna safnaðist til góðgerðarsamtaka á kvöldinu.„Þetta heppnaðist rosalega vel. Það voru allir mjög sáttir og sögðust sjá okkur að ári,“ segir Sigríður Hrönn Gunnarsdóttir hjá Hárstofu Sigríðar sem stóð fyrir kvöldinu.
Kvöldið var notað til að safna fyrir góðgerðarsamtökum. Þannig fékk Krabbameinsfélag Austfjarða 140 þúsund króna peningagjöf og 400.000 krónur fengust til Björgunarsveitarinnar Ársólar þegar snjósleði í hennar eigu var boðinn upp.
„Veislustjórinn okkar sagði að hún hefði ekkert þurft að gera. Karlarnir vildu bara spjalla, skoða allt fína dótið og horfa á einhver jeppamyndbönd. Þegar hún ætlaði að segja eitthvað, draga í happdrætti og fleira, voru þeir ekkert að hlusta og það sagði okkur nóg um stemminguna.“