Djúsí popp og diskó: Íslensk poppsaga 60-80
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Kór Fjarðabyggðar ásamt Gunnari Þórðarsyni, Daníel Þorsteinssyni og einsöngvurunum Heiðu Ólafs og Matta Matt leiða saman hesta sína í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á sunnudag á tónleikum sem helgaðir eru helstu perlum íslenskrar poppsögu frá árunum 1960-1980.
Gunnar Þórðarson fagnar í ár hálfrar aldar afmæli sem tónlistarmaður enda er tónlist hans þjóðkunn og fjölbreytt og hefur fylgt mörgum á lífsleiðinni. Nýjasta þrekvirki hans svo dæmi séu tekin er óperan Ragnheiður.
Á efnisskrá tónleikanna verða lög á borð við Starlight, To be grateful, Dont try to fool me, Söknuður og Disco frisco og hljómsveitarstjórn og útsetningar eru í höndum Gunnars Þórðarsonar og Daníels Þorsteinssonar.
Auk 20 manna strengja- og ryþmískrar hljómsveitar kemur fram 50 manna kór undir stjórn Gillian Haworth svo búast má við miklum krafti og djúsí poppi og diskói.