Skólaþing á Hallormsstað: Nemendur vildu senda kennarana í yngingarvél
Foreldrar, nemendur, starfsfólk skólans og fulltrúar úr stjórnsýslu sveitarfélaga voru boðaðir á skólaþing Hallormsstaðarskóla sem haldið var fyrir skemmstu. Áherslan var á að móta framtíðarstefnu fyrir skólann. Ýmsar frumlegar hugmyndir komu þar fram.„Það sem er sérstakt við þetta í mínum huga er að á þinginu fengu allir að segja sína skoðun,“ segir Elín Rán Björnsdóttir starfandi skólastjóri.
Skólaþing er haldið árlega en sérstaklega mikil vinna var lögð í þingið á Hallormsstað í ár þar sem heitar umræður hafa verið síðustu misseri um framtíð skólans sem glímt hefur við hraða fækkun nemenda og niðurskurð í fjárframlögum.
Þátttakendum var skipt upp í hópa og tryggt að hver hópur innihéldu góða blöndu af nemendum, starfsfólki, forráðamönnum sveitarfélaganna sem að skólanum standa: Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi og fulltrúum úr framtíðarnefnd skólans.
Fyrst var núverandi staða skoðuð, bæði það sem væri jákvætt og neikvætt við skólann. Þar túlkuðu menn hlutina á ólíkan hátt.
„Margir horfðu jákvæðum og neikvæðum augum á sama hlutinn, til dæmis fámennið. Það sem sumir sjá sem kost sjá aðrir sem galla.“
Næsta skref var að hugsa út í hvernig hægt væri að fullkomna skólann. „Margt mjög spennandi kom fram þar og margar góðar hugmyndir.“
Hugmyndirnar voru bæði settar fram í gamni og alvöru en til dæmis var lagt til að kennarar skólans yrðu settir í yngingarvél og að Fljótsdælingar greiddu hverjum þeim sem vildi ganga í skólann 150 þúsund krónur.
Þriðja skrefið var að þróa lausnir, hvernig komast ætti frá núverandi stöðu að fullkomnuninni. „Það virtust allir sammála um að fyrst og fremst þyrfti skólinn að fá að halda sér, fólk þyrfti að standa þétt saman og vinna sameiginlega að þeim málum sem brýnust væru,“ segir Elín Rán.
Næstu skref eru að forgangsraða brýnustu atriðunum og fylgja þeim eftir, einkum í samstarfi við starfsfólk og foreldra.
Elín Rán segir það sérstaklega gleðilegt í upphafi ferlisins hversu virkir nemendurnir hafi verið. „Það var rosalega hollt fyrir alla að fá tækifærið til að hlusta á raddir nemendanna sérstaklega, og þau voru bara svo frábær.
Þegar hóparnir voru að skila inn sínum hugmyndum fóru hópmeðlimir upp að töflu þar sem þeir límdu miðana á og lásu upp hugmyndirnar. Nemandi úr 2. bekk stóð fyrir framan allan hópinn og las upp fyrir hópinn og þótti ekki stór mál. Mjög margir nemendur vildu koma upp og skila frá sínum hópi, sem er alveg frábært og als ekki sjálfsagt.
Foreldrar voru mjög virkir líka og hafa greinilega miklar skoðanir á því hvað er gert og með hvað er unnið. Það hjálpar okkur sem vinnum þarna líka.“
Mynd: Michelle Lynn Mielnik