Atlantsolía: Erum komin í Egilsstaði til að loka hringnum - Myndir
Nítjánda stöðin í flota Atlantsolíu var opnuð á Egilsstöðum í sumar. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast með nýju stöðinni vera að vinna í því að loka hringnum.„Það er gott að vera loksins komin austur," sagði Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri í hófi sem fyrirtækið hélt á Egilsstöðum fyrir væntanlega viðskiptavini fyrir skemmstu.
Eigendur fyrirtækisins eru þeir Guðmundur og Símon Kjærnesteð og Brandon C. Rose en þeir hafa átt það frá stofnun í júní 2002. Byrjað var að afgreiða olíu til almennings árið 2003 en síðan hafa átján aðrar stöðvar bæst í hópinn, sú nýjasta á Egilsstöðum.
Þar með eru bensínstöðvarnar á staðnum orðnar fjórar auk þess sem Olís er með stöð í Fellabæ.
Í máli Hlyns Ragnarssonar, sölustjóra, kom fram að viðbrögðin við stöðinni á Egilsstöðum hefðu verið góð og stöðin væri liður í því að loka hringnum með því að dreifa Atlantsolíustöðvum um land allt.
Í tilefni dagsins var boðið upp á léttar veitingar, happdrætti og tónlistaratriði með Fjarðadætrum og jazzistunum Einari Braga Bragasyni og Jóni Hilmari Kárasyni. Austurfrétt leit við og fangaði stemminguna.