Orkumálinn 2024

Á Borgarfirði eystra ætla menn að toppa jólamarkaðinn í Berlín

„Við hófum þessa vegferð með svona nokkurs konar litlujóladegi 2019 en svo kom faraldurinn. Nú ætlum við hins vegar að byrja aftur og nú verður um töluvert stærri viðburð að ræða sem margir aðilar hér taka þátt í. Draumurinn er að toppa jólamarkaðinn í Berlín og koma Borgarfirði á kortið sem jólaþorpi Austurlands,“ segir Anna Margrét Jakobsdóttir Hjarðar hjá Blábjörgu á Borgarfirði eystra.

Gestir í þorpinu þann 17. desember næstkomandi mega eiga von á heljarinnar jólaveislu en þann dag verður blásið í jólalúðra af hálfu allmargra aðila og stanslaus afþreying í boði frá hádegi og fram til klukkan 17 þann dag áður en hægt verður að framlengja jólastemmninguna enn frekar á veitingastað og bar Blábjargar vel fram á kvöldið.

„Dagskráin öll er tilbúin en þátt í þessu með okkur taka fjölmargir aðilar eins og Búðin, Lindarbakki, Íslenskur dúnn, Sporður og Múlaþing kemur að þessu líka. Hér verður fyrirtaks jólamarkaður og aðkomufólk fær góðar móttökur í Búðinni þar sem fólk fær afhent bæði kort af bænum og sérstakt afþreyingarkort þar sem sjá má hvar viðburðir eiga sér stað frameftir degi en þeir deilast vel um bæinn okkar. Bærinn auðvitað skreyttur eins og best verður á kosið og auðvelt ætti að vera að fá góðan notalegan skammt af jólastemmningu.Alls staðar eitthvað um að vera sem minnir á jólahátíðina og ekki þarf að spyrja að því að jólasveinarnir verði eitthvað á ferðinni. Það er með öðrum orðum mikil og góð dagskrá allan þann dag fyrir alla sem langar að komast í sannkallað jólastuð.“

Eðli máls samkvæmt segir Anna að menn séu tilbúnir með viðbragðsáætlun ef veðurfar reynist ekki heppilegt. „Þá getum við flutt flest inn í hús ef til þess kemur þannig að ekkert fellur niður. En vonandi kemur ekki til þess enda mun skemmtilegra að ganga um þorpið, fá sér jólakökur og glögg og ganga fram á eitthvað spennandi hér og þar. Við vonum það besta í því.“

Það eru mikil jólabörn á Borgarfirði eystra og skemmst að minnast sérstakrar „jólalestar“ sem ók um bæinn fyrr í mánuðinum en fyrirmyndin þar var þekkt jólalest bjórframleiðandans Tuborg. Mynd Blábjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.