Á Borgarfirði eystri bjúgnaveisla með nýja laginu

„Okkur finnst bara mjög gaman að brydda upp á nýjungum fyrir fólkið hér og ef aðrir sjá sér fært að mæta er það bara hið besta mál,“ segir Dagrún Óðinsdóttir, yfirkokkur á Blábjörgum á Borgarfirði hinum eystra.

Á laugardagskvöld ætlar Dagrún að bjóða upp á hvorki meira né minna en fjórrétta bjúgnaveislu en alls ekki með gamla laginu. Kartöflur og uppstúfur heyra sögunni til að mestu leyti en í staðinn er komnar nýjungar sem allir hefðu gaman af að prófa.

„Þetta er fjórrétta bjúgnamatseðill. Við byrjum á bjúgna-nachos, næsti réttur er bjúgna-krókettur, svo færum við okkur yfir í bjúgna-gratín áður en við endum kvöldum á bjúgna-wellington. Hér heldur ekki um nein aðkeypt bjúgu að ræða heldur gerum við sjálf allt frá grunni og fáum allt hráefnið héðan af staðnum. Bjúgun eru meira að segja reykt hér í firðinum að okkar ósk. Svo gefst gestum tækifæri á að skola öllu niður með okkar glænýja jólabjór Jóla-Nadda en það er dökkur og freyðandi bjór eins og þeir gerast bestir.“

Naddi, fyrir þá sem ekki vita, var og er helsti óvætturinn í firðinum. Hann að hálfu maður og hálfu dýr og hélt sig í svokölluðu Naddagili þar sem hann sat fyrir mönnum og drap marga en engum sögum fer af drápum hans upp á síðkastið.

Töluvert hafði verið bókað í veisluna þegar Austurfrétt hafði samband síðdegis en eitthvað af lausum borðum enn á veitingastað Blábjargar á laugardaginn kemur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.