Orkumálinn 2024

Á kafi í blakinu en toppaði líka í náminu

„Fyrir mitt leyti var þetta bara metnaður til að gera vel það sem maður tekur sér fyrir hendur og hafa fókus á það alla leið í endamarkið,“ segir Ester Rún Jónsdóttir, sem hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur í íslensku og erlendum tungumálum við útskrift í Verkmenntaskóla Austurlands nýverið. Stúlkan gerði reyndar gott betur því hún hlaut jafnframt raungreinaverðlaun Háskólans í Reykavík fyrir framúrskarandi árangur í raungreinum á stúdentsprófinu.

Margir þekkja Ester úr blakinu í Neskaupstað en þar slær hún ekki slöku við. Hún segir það ekkert tiltökumál að taka bæði námið og blakið alvarlega, aðeins þurfi aga og skýra stefnu á það sem fólk vilji.

„Það var mér alveg nóg að einbeita mér hundrað prósent að náminu á daginn og skipta svo yfir í blakið þess utan en það eru æfingar fjórum til fimm sinnum vikulega og ofan á það eru ferðir á leiki nánast um hverja helgi. Ég hef aldrei verið neitt partíljón þannig að slíkt truflaði mig lítið.“

Framtíðin er aðeins óráðin að sögn Esterar en hún hefur ákveðið að taka sér árs frí frá námi til að finna nákvæmlega hvað hana langi að gera í framtíðinni.

„Eins og staðan er nú er ég helst að hallast að heilbrigðistörfum af einhverju tagi og þá kannski helst með einhverja tengingu inn í íþróttirnar, kannski sjúkraþjálfun eða eitthvað slíkt. Þangað til verð ég hér fyrir austan og ætla að vera áfram í blakinu. Svo kemur hitt í ljós.“

Ester hlaðin gjöfum á útskriftardaginn. Nú tekur hún eins árs frí frá frekara námi. Mynd úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.