Að gegla örvar heilann og hjálpar í námi

Að gegla (e. juggle) virðist tilvalin aðferð til að þjálfa heilann til að styrkja námshæfi og fá tilbreytingu milli verkefna. Þjálfari, sem kynnt hefur kosti listarinnar víða um land, segir hægt að ná góðum tökum á gegli á um hálftíma.

Jörgen Nilsson, sem undanfarin 16 ár hefur starfað við skólabúðir Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni og áður Laugum, hefur síðustu vikur ferðast um landið til að kynna geglkennslu sína fyrir skólum og öðrum aðilum víðsvegar um landið.

Í búðunum byrjaði hann að kenna níundu bekkingunum sem þangað komu að geggla til gamans en fór síðan að sjá víðtækari áhrif. „Fyrst sá ég eitthvað gerast en vissi ekki hvað. Þess vegna skrifaði ég niður það sem ég upplifði í tímanum niður.

Þegar ég fékk til mín nemanda í uppeldis- og félagsfræði frá Danmörku bað ég hann um að lesa yfir lýsingar mínar og fylgjast með í tímum til að kanna hvort hann væri sammála þeim. Hann benti mér á að þetta væri dæmigert fyrir jákvæða sálfræði og fór að fræða mig um hana,“ sagði Jörgen við Austurfrétt er hann var á ferð um Austurland fyrr í mánuðinum.

Bætir námsárangurinn

Þetta varð til þess að Jörgen fór að kynna sér bæði geglið og jákvæðu sálfræðinga betur og taka í auknu mæli inn í starf skólabúðanna. „Það sem ég er að kynna núna byggir á persónulegri reynslu minni undanfarin ár sem síðan er stutt með rannsóknum,“ segir hann og nefnir sem dæmi rannsókn Oxford háskóla.

Vísindafólk á vegum skólans notaði gegl til að kanna hvað gerðist í heila fólks þegar það lærir eitthvað nýtt. Breytingar sáust á hvíta efni heilans sem aftur hefur kallað á frekari rannsóknir á ýmiss konar hrörnun heilans og hvort hægt sé að bregðast við henni.

En geglið hefur líka verið reynt á yngra fólki og það eru ekki síst þær tilraunir sem hvatt hafa Jörgen áfram. „Í Bandaríkjunum var maður sem fékk inni í fjölda skóla til að kenna gegl í kortér á dag. Það hafði þau áhrif að námsárangur, til dæmis í lestri, rauk upp.

Með geglinu lærirðu að fylgja hlutunum rökrænt og hugsa ekki of djúpt. Það gerist þegar þú lærð tökum á hlutunum. Til dæmis þegar við erum að læra hugsum við mikið um hvernig við hjólum en gleymum því þegar við höfum náð tökum á því. Þá verður það okkur eðlislægt.“

Þess vegna vill Jörgen meina að geglið sé gott til að brjóta upp skóladaginn og bæta námsárangur. „Þegar þú ert búinn að vera að læra og hausinn er að springa er hægt að fara og gegla í 2-3 mínútur. Þá slakar heilinn á og þú getur snúið þér að næsta verkefni. Eða þegar þú ert búinn að lesa sömu línuna í bókinni tíu sinnum geturðu lagt bókina frá þér, geglað smá og snúið aftur að bókinni. Þá hefur áherslan í heilanum færst frá einum stað til annars og hnúturinn vonandi leyst.“

Grunnurinn kominn á 30 mínútum

Nú hefur Jörgen sett upp þjálfun sem sérstaklega er ætluð skólum. „Ég kem með um klukkutíma fyrirlestur fyrir kennarana þar sem ég útiskýri verkefnið. Lykillinn er geglkassi, sem er hafður þar sem auðvelt er að komast í hann. Þegar nemandi er búinn með sitt verkefni getur hann farið í kassan og geglað áður en hann heldur áfram. Í þessum fyrirlestri útskýri ég líka fyrir kennurunum af hverju geglið er svona gott og hvernig þessu er fylgt eftir.“

Hann segir lítið mál að kenna geglið og sjá megi mikinn árangur á stuttum tíma. „Eftir þá þjálfun sem ég hef náð mér í síðustu ár fullyrði ég að ég geti kennt 90% af 30 manna hópi að gegla á 30 mínútum. Ef við bætum tíu mínútum við þá get ég komið þeim tveimur og tveimur til að kasta á milli sín.

Ég var með námskeið nú um daginn í skóla í Hafnarfirði og það var magnað að sjá árangurinn auk þess sem skólinn var ánægður. Það er gaman að sjá hversu miklar framfarir verða á stuttum tíma. Krakkarnir fara frá því að segja „ég get þetta ekki“ yfir í „hvernig get ég gert meira á þessum“ á svipstundu.“ 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.