Aðalheiður Borgþórsdóttir hlýtur menningarverðlaun SSA

Aðalheiður Borgþórsdóttir á Seyðisfirði hlýtur menningarverðlaun Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í ár. Aðalheiður hefur komið víða við í menningarlífi, bæði Seyðisfjarðar og Austurlands, í hátt í 40 ár.


Aðalheiður er fædd í Vestmannaeyjum árið 1958 en fluttist á þrettánda ári austur á Seyðisfjörð. Hún byrjaði ung að spila tónlist og halda „rokkótek“ ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Lólu á Seyðisfirði. Sveitin náði ágætu flugi og vann meðal annars hljómsveitakeppni Stuðmanna á verslunarmannahelgarhátíð í Atlavík árið 1982.

Aðalheiður var ráðin sem ferða- og menningarmálafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 1999-2014. Á þessum árum kom hún meðal annars að stofnun menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells, uppbyggingu Hótels Öldunnar og ýtti af stað listahátíðinni LungA. Hún var framkvæmdastjóri allra þessara verkefna fyrst í stað en vann lengst fyrir LungA eða í 17 ár.

Auk þessa hefur Aðalheiður komið að skipulagningu fjölda listasýningar, tónleika og annarra lista- og menningarviðburða sem skapað hafa atvinnu og dregið bæði fólk og fjármagn til Seyðisfjarðar.

Aðalheiður hratt af stað verkefninu „Aldamótabærinn Seyðisfjörður“ en með því var meðal annars mörkuð stefna um varðveislu gamalla húsa í bænum sem aftur vakti athygli á staðnum sem ferðamannabæ. Aðalheiður vann ötullega að markaðssetningu Seyðisfjarðar, einkum hafnarinnar sem í dag er fjórða stærsta skemmtiferðaskipahöfn landsins.

Aðalheiður hefur undanfarin tvö ár starfað sem bæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar. Sveitarfélagið sameinaðist í byrjun vikunnar inn í nýtt sveitarfélag, Múlaþing, en Aðalheiður mun fylgja því úr hlaði fyrst um sinn.

Í tilkynningu er haft eftir Aðalheiði að hún sé þakklát fyrir viðurkenninguna. Hún líti á sjálfa sig sem „menningarverkakonu“. Hún hafi þó alla tíð, í allri sinni vinnu, leitast eftir því að starfa í góðum hópi. Hún segir: „Það er aldrei ein manneskja sem hrindir öllu í verk og hef ég blessunarlega ávallt verið heppin með samstarfsfólk. Ég er teymiskona í eðli mínu og hef átt frábært samstarf við fólk m.a. Björtu, dóttur mína og ótal fleiri.“

Tilkynnt var um verðlaunin á haustþingi SSA sem að þessu sinni var haldið í fjarfundi.

Björt og Aðalheiður á sviði á LungA 2019 þar sem Aðalheiður var heiðruð fyrir störf sín fyrir hátíðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.