Aðeins hundrað miðar eftir á Bræðsluna í ár

Sala miða á tónlistarhátíðina Bræðsluna á Borgarfirði eystra gengur eins vel nú og undanfarin ár og eru aðeins um hundrað miðar eftir að sögn skipuleggjanda.

Það líklega engum ofsögum sagt að Bræðslan sé þekktasta tónlistarhátíð Austurlands síðustu árin og á þá hátíðina verið uppseld meira og minna síðastliðinn áratug og gott betur. Að þessu sinni er stuðið viku fyrir Verslunarmannahelgina eða 28. til 30. júlí og til eru þeir sem segja ekki hægt að taka betra forskot á þá miklu skemmtanahelgi en á Borgarfirði eystra á Bræðslunni.

„Það er allt að ganga upp eins og venjulega síðustu árin,“ segir Magni Ásgeirsson, helsti forsprakki hátíðarinnar, en að þessu sinni eru sex þekktir innlendir listamenn sem skemmta munu gestum meðan á hátíðinni stendur. Það eru Maus, Bríet, Karlotta, Una Torfa, Jói Pé og Króli og Laddi sjálfur. Dagskráin með öðrum orðum pottþétt og sjálfur segir Magni líklegt að miðarnir klárist á næstu dögum og uppselt verði eins og venjulega.

„Það gengur allt smurt í undirbúningnum enda töluverð reynsla komin á hlutina hér í Borgarfirðinum. Þetta verður með ósköp hefðbundnu en góðu sniði og við breytum lítið frá hefðinni undanfarin ár. Enda engin ástæða til að breyta því sem vel gengur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar