Aðventa Gunnars lesin um helgina

Saga Gunnars Gunnarssonar um eftirleitir Fjalla-Bensa og förunauta hans á Mývatnsöræfum verður að venju lesin í Gunnarshúsum í Reykjavík og á Skriðuklaustri 12. desember, annan sunnudag í aðventu.

Hjá Rithöfundasambandi Íslands, í Gunnarshúsi á Dyngjuvegi 8, les Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir, leikkona og handritshöfundur. Hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri les heimamaðurinn Þór Ragnarsson áhugaleikari. Lesturinn hefst á báðum stöðum kl. 13.30.

Allir eru boðnir velkomnir á þessa viðburði að viðhöfðum hefðbundnum sóttvörnum en þeir sem ekki komast geta notið þeirra í streymi sem finna má gegnum Facebook viðburði staðanna.

Frá árinu 2005 hefur Gunnarsstofnun staðið fyrir upplestri á Aðventu Gunnars Gunnarssonar og unnið að því að breiða þá hefð út, m.a. til Berlínar og Moskvu. Sagan er lesin á æ fleiri stöðum fyrir jólin hérlendis og erlendis þó að á síðasta ári hafi lesturinn fyrst og fremst farið fram í streymi. Þá hlýddu t.a.m. mörg þúsund manns á Ólaf Darra Ólafsson lesa söguna við arineld á Dyngjuveginum.

Gunnar Gunnarsson skrifaði nóvelluna Aðventu árið 1936 og kom hún út í fyrsta sinn það ár í Þýskalandi. Síðan þá hefur sagan um Benedikt, Eitil og Leó verið lesin víða um heim af milljónum manna, ekki síst í desember.

Aðventa er það verk Gunnars sem þýtt hefur verið á flest tungumál og selst í stærstum upplögum. Hún kemur reglulega út í Þýskalandi hjá Reclam forlaginu en hefur náð flugi víðar. Árið 2016 kom hún t.a.m. út á ítölsku og hefur selst þar í yfir 20 þúsund eintökum. Næsta tungumál sem til stendur að þýða Aðventu á er hebreska.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.