Æði veglegur jóladagur á Borgarfirði eystri framundan

Jóladagurinn á Borgarfirði eystri fer fram á laugardaginn kemur og verður óvenju veglegur að þessu sinni. Allar verslanir og þjónustuaðilar í bænum hafa opið og mikill fjöldi viðburða frá morgni til kvölds.

Jóladagurinn þar í bæ hefur smátt og smátt verið að öðlast veglegri sess í bæjarlífinu en eftir var tekið þegar deginum var fagnað fyrir ári síðan að þangað kom töluvert af aðkomufólki víða að til að skemmta sér með heimafólkinu. Sumir alla leið frá Neskaupstað að sögn Auðar Völu Gunnarsdóttur en hún ásamt tveimur öðrum halda úti Jólahóp bæjarins sem hefur það verkefni að skipuleggja daginn.

„Hann er líklega veglegri nú en áður enda má heita að það sé eitthvað í boði nánast allan þann dag. Þetta er auðvitað fyrst og fremst fjölskylduhátíð en auðvitað allir velkomnir og ég hissa ef ekki eitthvað af þeim viðburðum sem í boði verða hitta ekki í mark hjá gestum.“

Dagskráin sannarlega ítarleg. Náttúruskólinn býður upp á ýmsa forvitnilega leiðangra, hinn fornfrægi Lindabakki skreyttur í bak og fyrir með gömlum minjum frá Minjasafni Austurlands og vitaskuld jólalegt góðgæti með. Sögutjald verður sett upp í grunn- og leikskólanum þar sem sagðar vera sagnir af óvænta taginu, snjóþotubraut sett upp á tjaldsvæði bæjarins við Álfaborgina að ógleymdum handverksmarkaði í Jólahöllinni sem íþróttahúsið kallast þennan dag. Dansað verður kringum jólatré og þar kynnt Hjálpartréð sem hvetur alla til að vera góð við alla í kringum okkur. Er þá fátt eitt nefnt fyrir utan að öll fyrirtæki staðarins opna dyr sínar gestum og kynna sitt. Nákvæma dagskrá má sjá hér.

Jólasveinar, heitt kakó, grilluð bjúgu, fallegt landslag og ýmislegt um að vera allan daginn á Borgarfirði eystri. Mynd Blábjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar