Ætlaði aldrei aftur 2014 en keppt allar götur síðan
Á laugardaginn kemur i fer fram það sem er óumdeilanlega þekktasta hjólreiðakeppni Austurlands: Tour de Ormurinn. Að þessu sinni verður ný keppnisleið í boði fyrir byrjendur.
Einn þeirra sem undirbýr sig af töluverðu kappi fyrir keppnina þetta árið er Haddur Áslaugsson, tækni- og gæðastjóri hjá HEF. Það gerir hann þó ekki sérstaklega til að vinna til verðlauna eins og hann segir sjálfur heldur til að skora á sjálfan sig að bæta fyrri met.
„Ég hef tekið þátt í Tour de Ormurinn allar götur frá árinu 2013 en reyndar kom bil þarna um tíma meðan Covid gekk yfir. Ég svona undirbý mig þokkalega með styrktaræfingum og beinlínis með því að hjóla, hjóla og hjóla. Ég ekki mikið á þeim slóðum að geta keppt við þá allra bestu en þetta gefur mér svo mikið samt að ég reyni mitt besta. Plúsarnir fyrir mér eru að þetta er í fyrsta lagi frábær líkamsrækt, maður upplifir náttúruna á mikið betri hátt en í bíl og svo finnst mér þetta dágóð leið til að hverfa dálítið inn í sjálfan mig og hugsa.“
Haddur rifjar upp að þegar hann byrjaði í keppninni á stystu mögulegu keppnisleiðinni, sextíu og þriggja kílómetra leið, hafi hann svarið í lokin að þetta ætlaði hann aldrei að gera aftur. Ári síðar skráði hann sig í 103 kílómetra keppnina.
„Fyrir mér er þetta nánast eins og íhugun í geysifallegu umhverfi og enginn sem þátt tekur getur efast um að keppnisleiðirnar meðfram Lagarfljótinu eru með þeim allra bestu í landinu. Maður upplifir svo marga dásamlega staði sem enginn sér úr bíl og það er stundum horft á mig stórum augum þegar ég er að lýsa einhverjum dásemdarstaðnum sem ég vitnaði á leiðinni en enginn hefur veitt eftirtekt.“
Keppnisleiðirnar nú eru þrjár: 26 kílómetra leið frá Hallormsstað inn á Egilsstaði en það er ný leið sem ætluð er byrjendum. 68 kílómetra túrinn umhverfis efri hluta Lagarfljóts og svo að lokum 103 kílómetra leiðin þar sem einnig er hjólað langt inn í Fljótsdal í viðbót við hringinn um fljótið. Keppnin fer fram á laugardaginn kemur og veðurspáin þann daginn sallafín eða um fimmtán stig og sól í og með.
Haddur í keppninni fyrir ári síðan. Hann er ekkert sérstaklega að stefna á verðlaunasæti heldur einfaldlega nýtur þess bara að taka þátt. Mynd Gunnar Gunnarsson