Ætlar á syðsta og nyrsta odda Evrópu á hjóli: Sagði mömmu ég kæmi heim fyrir jól

Þjóðverjinn Ralf Haag var meðal farþegar ferjunnar Norrænu sem kom til Seyðisfjarðar í morgun. Ísland er meðal viðkomustaða í 30.000 kílómetra hjólaferðalagi um Evrópu með aleiguna.


„Ég lagði af stað frá Köln fyrir þremur vikum. Það var ekki svona kalt þar. Þetta er hrikalegt,“ sagði Ralf sem var í óðaönn að tjalda á Egilsstöðum í dag.

Ralf hjólaði reyndar ekki yfir Fjarðarheiðina sem var torfarin í morgun heldur fékk far með leigubíl. „Mér var sagt að það jafngilti sjálfsmorði að reyna að komast yfir heiðina.“

Heima í Köln starfaði Ralf hjá Tetra Pak sem Íslendingar þekkja vel fyrir að framleiða allar mjólkurfernur landsins. Hann er fertugur og vildi gera nýja hluti.

„Vinur minn, sem er með taugasjúkdóm, gerði mynd um menn á mínum aldri sem voru dauðvona. Hann spurði hvers þeir óskuðu sér og tími með fjölskyldunni var þar ofarlega á blaði en mest af öllu langaði þá að sjá meira af heiminum.

Ég kom út af myndinni með tárin í augunum og ákvað að breyta lífi mínu. Viku síðar hætti ég í vinnunni.“

Ralf bendir á tjaldið, hjólið og ferðatöskuna. „Þetta er aleiga mín. 30 kíló í fimm töskum. Þetta er miklu einfaldara líf.“

Ralf ætlar fjórar vikur í Íslandsferðina. Eftir hana tekur hann ferjuna aftur til baka til Danmerkur og þaðan liggur leiðin upp í gegnum Svíþjóð, norður til Lapplands og þaðan aftur suður eftir Noregi.

Áfram verður haldið í gegnum Þýskaland. „Því sumarið er best þar,“ segir hann og hlær. Austurríki, alveg niður í gegnum Ítalíu að Sikiley, svo meðfram ströndinni til Barselónu á Spáni, að Gíbraltar, í gegnum Portúgal og Frakkland.

„Þetta verða 30.000 kílómetrar á átta mánuðum. Ég lofaði mömmu að ég yrði kominn heim fyrir jól.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar