Ævintýraleg sögustund í Sláturhúsinu

Fjölskylduvænn fjöltyngis viðburður á íslensku, pólsku, ensku og fuglamáli í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í dag klukkan 14:00. Nanna Gunnarsdóttir, leikkona og Magdalena Tworek leiða fjölskyldur í gegnum 30 mínútna gagnvirka sögustund um farfugla Íslands. Aðgangur ókeypis.

 

Árið 2020 hafði Náttúrufræðistofnun Kópavogs samband við rithöfundinn Ewa Marcinek og bað hana að skrifa verk um farfugla Íslands. Ewa tók sig þá til og ritaði verkið Tweet Tweet! eða Tíst Tíst! eins og það heitir á íslensku.


Í sögunni má heyra ýmsar skírskotanir í hefðir og fuglakúltúr en einnig er komið inn á það hvernig farfuglar eiga ýmislegt sameiginlegt með innflytjendum. Nanna talar meðal annars um það hvernig „farfuglarnir hafa allir sín eigin hljóð eða tungumál, atferli og hefðir en eiga það sameiginlegt að gera sér heimili á Íslandi.“


Sýndu á sundlaugabakka


Sýningin hefur verið á ferðalagi um landið. Fyrst var farið um Suðurlandið og unnið sig austur á land. „Þetta hefur verið mjög gaman, við fengum fullt hús í Vestmannaeyjum en það virðist vera að þegar veðrið er mjög gott vilji fólk síður fara í leikhús. Við tókum til dæmis til þeirra ráða, á Stöðvarfirði í fyrradag, að flytja sýninguna á sundlaugabakkan við góðar undirtektir.“


„Ég fæ ekki leið á sögunni“ segir Nanna þegar hún segir frá sýningunni. Hún sé ekki mikil eða stór í sniðum en gagnvirk og skemmtileg. „Þetta er einskonar upplestur eða eiginlega leiklestur þar sem ég fæ að túlka hina ýmsu fugla í hljóðum og hreyfingum.“ Sýningin er því blanda af leiklestri og hljóðmynd hannaðri af Ewu, höfundinum. „Það eru allskonar hljóð, fuglahljóð, umhverfishljóð og lög sem einkenna fuglana.“

 

Planið að gefa út bókina

Sagan er skrifuð upprunalega á ensku af pólskum rithöfundi, Nanna hefur nú þýtt hana á íslensku líka og segir hún það fara eftir áhorfendahóp hversu mikið sé skipt á milli tungumála. „Planið er síðan að gefa út bókina þar sem hún er til á þessum tungumálum, Ewa vill gefa hana út á þeim öllum en okkur vantar núna bara myndskreytinguna svo við vonumst til að geta gefið hana út einhverntíman á næsta ári.“

Nanna og Magdalega eru þakklátar fyrir góðar mótttökur á Egilsstöðum. „Ragnhildur í Sláturhúsinu hefur verið alveg æðisleg, hjálpað okkur mikið og hýsti okkur í nótt.“ En þær hafa ferðast um í tjaldi og þótti illt í efni þegar tók að rigna í gær.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar