Afhenti undirskriftalista
Emil Thorarensen á Eskifirði gekk á fund heilbrigðisráðherra 2. júní og afhenti honum undirskriftarlista frá íbúum Fjarðabyggðar vegna málefna Heilbrigðisstofnunar Austurlands og yfirlæknis heilsugæslu Fjarðabyggðar.
Rita þar 770 einstaklingar í Fjarðabyggð undir svohljóðandi áskorun: ,,Við undirritaðir íbúar í Fjarðabyggð skorum hér með á yfirstjórn HSA, (Einar Rafn Haraldsson, Stefán Þórarinsson og Lilju Aðalsteinsdóttur) að segja af sér nú þegar, að öðrum kosti beri heilbrigðisráðherra að víkja stjórninni frá. Ástæðan er einföld: Aðför sú, sem Einar Rafn Haraldsson í umboði stjórnar HSA, viðhafði gegn Hannesi Sigmarssyni yfirlækni HSA í Fjarðabyggð talar sínu máli. Málatilbúnaður yfirstjórnar HSA gegn Hannesi, til lögreglurannsóknar og síðar ríkissaksóknara, auk annarra launráða, og engan enda ætlar að taka, hefur engan árangur borið, en hins vegar skilað okkur ófullnægjandi læknisþjónustu. Málinu er einfaldlega lokið og Hannes á aftur að hefja störf.“
Emil sagði að loknum fundinum með ráðherra að sér hefði verið vel tekið. ,,Ögmundur sagðist ekki mega koma inn í ferlið sem málið væri í hjá embættismannakerfinu,“ segir Emil. ,,Ráðherra kvaðst hafa miklar áhyggjur af málinu og væri búinn að gera það sem í hans valdi stæði til að lyktir málsins yrðu sem fyrst kunnar. Hann þakkaði fyrir móttöku listanna og sagði að þetta mál væri búið að taka alltof langan tíma.“
Mynd: Hannes Sigmarsson yfirlæknir.