Afhjúpa minnisvarða um vesturfara á Seyðisfirði og Vopnafirði

Minnisvarðar um fólk sem fluttist frá Austfjörðum til Norður-Ameríku undir lok 19. aldar verða afhjúpaðir á Seyðisfirði á sunnudag og Vopnafirði á þriðjudag. Afhjúpunin er hluti af ferðalagi átthagafélagsins Icelandic Roots um landið.

Icelandic Roots fagnar í ár 10 ára afmæli sínu og er ferðin farin af því tilefni. Félagið heldur meðal annars utan um gagnagrunn um 788 þúsund Vestur-Íslendinga.

Allt starf félagsins er unnið í sjálfboðaliðastarfi. Meðal þeirra eru Hjördís Hilmarsdóttir, sem undirbúið hefur viðburðinn á Seyðisfirði og Cathy Josephson á Vopnafirði sem stýrir ættfræðivinnu þess hérlendis. Cathy hlaut á nýársdag fálkaorðuna fyrir störf sín við að rækta tengslin við Vestur-Íslendinga.

„Þetta er um 20 manna hópur sem er að ferðast um landið. Hann kemur við á stöðum þaðan sem fólk hélt frá landinu til Norður-Ameríku,“ útskýrir Cathy. Hópurinn mun dvelja eystra í nokkra daga og skoða sig um á svæðinu.

Á sunnudag klukkan 16:30 verður hópurinn á Seyðisfirði þar sem Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Múlaþings, mun afhjúpa minnisvarða um vesturfarana á Hafnargarðinum við Ferjuleiru. Talið er að um 2700 Austfirðingar, þar af um 700 Seyðfirðingar, hafi siglt þaðan í vesturátt á árunum 1876-1914 en flutningarnir hófust í kjölfar erfiðleika sem fylgdu Öskjugosinu 1875.

Sambærileg athöfn verður í kirkjugarðinum að Hofi í Vopnafirði á þriðjudag klukkan 13:30. Þátttakendum í þeirri athöfn býðst einnig að fá tré til gróðursetningar sem Icelandic Roots gefur.

„Trén eru táknræn því við erum að hugsa um ræturnar, bæði fólkið sem heldur tengslum við sögu forfeðranna á Íslandi en líka Íslendinga sem tengist skyldfólki í Vesturheimi,“ segir Cathy.

Báðar athafnirnar eru opnar almenningi.

Mynd: Múlaþing

 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.