Aftur kominn Moskvutími í Neskaupstað

Klukka sem sýnir staðartíma í Moskvu, höfuðborg Rússlands, hefur aftur verið sett upp í sundlauginni í Neskaupstað. Slíka klukka hafði hangið þar uppi um áraraðir en var tekin niður eftir að Rússlandsher réðist inn í Úkraínu árið 2022. Útskýringar fylgja klukkunni nú.

Neskaupstaður hefur löngum verið uppnefndur „Litla Moskva,“ einkum vegna þess að Alþýðubandalagið átti þar hreinan meirihluta í bæjarstjórn í 52 ár. Fleira kom þó til, sterk verkalýðshreyfing og félagsleg eign á framleiðslutækjum og sameiginlegar hugsjónir um jöfnuð áttu líka sinn hlut að máli.

Norðfirðingar hafa bæði gefið í og slegið úr með þessa ímynd. Hún á til dæmis birtingu í þorrablóti bæjarins sem kallast Kommablót. Árið 2018 var frumsýnd heimildamyndin Litla Moskva þar sem fjölmargir Norðfirðingar ræddu þessa forsögu. Aðrir hafa sagt nafnið tilraunir hægri manna til að stimpla og niðurlægja félagslega hugsun Norðfirðinga.

Uppruni klukknanna útskýrður


Árum saman voru tvær klukkur í karlaklefa sundlaugarinnar. Önnur sýndi staðartíma í Neskaupstað, hin tímann í Moskvu. Sú síðarnefnda var tekin niður í kjölfar árásarinnar á Úkraínu. Það mun hafa verið umdeild enda klukkan ekki tákn um stuðning við núverandi stjórnvöld í Rússlandi né stríðsreksturinn.

Klukkurnar eru nú aftur orðnar tvær. Önnur sýnir tímann í Moskvu, en hin tímann í Neskaupstað. Hún er merkt „Litla Moskva.“ Klukkunum fylgir nú skýringartexti á bæði íslensku og ensk, þar sem farið er yfir forsöguna og þá hugmyndafræði sem var ríkjandi í bænum lengst af 20. öldinni.

Ekki fæst uppgefið hver setti upp merkingarinnar. Meðlimur í gufubaðsklúbbi í Neskaupstað, sem ekki vill láta nafns síns getið, sagði við Austurfrétt að meðlimir klúbbsins hefðu „tekið þessu vel enda löngum furðað sig á því að taka þessa sögulegu tengingu niður sem á sér ekkert skylt við Pútín og hans erindreka. Þetta væri skemmtileg hefð með tilvitnun í sögu staðarins sem hafði áður sterkar tengingar við hugmyndafræði Sovétríkjanna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar