Áhersla á samtímalist á menningarhátíð í Fjarðabyggð
Innsævi, lista- og menningarhátíð Fjarðabyggðar, hefst formlega um helgina og stendur í mánuð. Samtímalist er í forgrunni hátíðarinnar þar sem leiddir verða saman listamenn úr heimabyggð og aðkomufólk.„Við erum með þrjá meginpóla í þessari hátíð: samtímalist, kvikmyndir og aðra viðburði. Þessi áhersla á samtímalistina er það sem helst skilur lista- og menningarhátíðina frá öðrum hátíðum sem haldnar hafa verið hér í Fjarðabyggð,“ segir Ari Allansson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.
Strangt til tekið fór hátíðin af stað með ljósmyndasýningunni Tíru í Neskaupstað í byrjun mánaðarins. Um helgina bætast fleiri viðburðir við, í dag opnar sýningin Slæsa í gömlu netagerðinni í Neskaupstað en þar sýnir listahópur sem tengist Kling og Bang í Reykjavík. „Þau vinna meðal annars inn í rýmið sem er sérstakt. Við verðum á annarri hæð þar sem viðgerðaraðstaðan var. Hampiðjan hefur látið okkur hafa húsið undir menningarstarfsemi í sumar sem við erum mjög þakklát fyrir.“
Annað hús sem fengið hefur nýtt hlutverk sem sýningarrými á hátíðinni er gamli barnaskólinn á Eskifirði. Þar opnar listasýning sem tengist silfurbergi á morgun en áður verður Kristján Leifsson með fyrirlestur um steintegundina í Kirkju- og menningarmiðstöðinni. „Það er verið að gera upp skólahúsið en það verður hlé á því og búið að setja upp sýningarrými sem við kunnum vel að meta,“ segir Ari.
Ekki allt komið fram enn
Hátíðin stendur til 16. ágúst en viðburðir hennar dreifast yfir allt sveitarfélagið. Meðal þeirra má nefna kvikmyndahátíð í Valhöll, Eskifirði um mánaðarmótin, hljóðverk á Mjóafirði og Stöðvarfirði og leiksýningu í Streitisvita.
„Við kynnum dagskrána áfram í næstu viku og þar næstu. Þetta er svona gorkúluaðferð, þær spretta upp daginn eftir rigninguna. Við erum ekki ekki með neinar stórar opnanir, meðal annars út af Covid-19, en viljum frekar minni viðburði eða sýningar sem standa uppi í fjórar vikur þar sem fólk getur komið og farið að vild. Við verðum með á öllum stöðunum þótt þeir stærstu taki meira til sínu.“
Ekki í stað bæjarhátíða
Listamenn sem koma að eru áberandi um helgina en heimamenn verða einnig virkir í hátíðinni. „Hugmyndin er að fá listafólk sem kemur að en vera á sama tíma vettvangur fyrir fólk héðan af svæðinu. Við höfum verið í samstarfi við listahópinn Laust, sem eru skapandi sumarstörf fyrir ungmenni hér og á Fljótsdalshéraði sem verða með sýningar.
Hátíðin er líka vettvangur fyrir fólk héðan sem vinnur í þessum geira með samtímalist. Hún tengist gjarnan því sem við erum að gera í nútímanum. Við erum kannski minna að horfa til fortíðar þótt við lokum ekki á þá sem hafa verið að vinna með slíkt efni.“
Ari vonast til að íbúar Fjarðabyggðar og gestir taki hátíðinni vel. Þar var öllum bæjarhátíðum og öðrum stærri viðburðum í sumar frestað. Innsævi er þó ekki ætlað að koma í stað þeirra. „Þessari hátíð er ekki ætlað að fylla slíkt tómarúm en bjóða upp á viðburði sem krefjast þess ekki endilega að margt fólk komi saman á sama tíma á sama stað.“
Undirbúningur hátíðarinnar hefur staðið í allan vetur en hún er hluti af menningarstefnu Fjarðabyggðar. Hugmyndin er að hún verði framvegis haldin annað hvert ár.