„Akkúrat á þeim stað núna sem við viljum vera“

„Við erum himinlifandi með mótttökurnar sem við fengum á sýningunni og staðfesta þær að við séum á réttri leið með góða vöru,“ segir Þórunn Eymundardóttir, ein af RoSamBo hönnunarteyminu, en vörulínan þeirra RÓ tók þátt í hönnunarsýningunni Formex í Svíþjóð.



Hönnunarteymið RoShamBo samanstendur af þeim Þórunni Eymundardóttur, Hönnu Christel Sigurkarlsdóttur og Litten Nystrøm. RÓ-hönnunarlínan þeirra var valin til þátttöku í FORMEX young designers vörusýningunni sem fram fór í Stokkhólmi dagana 18. - 21. janúar, en um 800 sýnendur tóku þátt.

RÓ vörulínan samanstendur af dýnum og púðum fylltum með íslenskri ull þar sem einfaldleiki og umhyggja fyrir líkama og sál er í fyrirrúmi. Mikil áhersla er lögð á gæði, formfegurð, sanngjarna framleiðsluhætti og virðingu fyrir umhverfinu. Vörurnar eru handgerðar á verkstæði RoShamBo á Seyðisfirði.


Varan er einstök, áhugaverð og verðmæt

„Sýningin á FORMEX markar fyrstu skrefin í útrás RÓ sem frumsýnd var á Hönnunarmars fyrir tæpu ári síðan. Það skiptir okkur miklu máli að komast út fyrir landsteinana og kynna vöruna á vettvangi sem þessum, þar sem við hittum svo marga á stuttum tíma og höfum möguleika á að mynda góð sambönd. Það var líka mjög mikilvægt fyrir okkur að fá viðbrögð á það sem við erum að gera, frá öðrum hönnuðum, seljendum og almenningi sem kom á sýninguna, en það staðfesti að við erum að skapa eitthvað einstakt, áhugavert og verðmætt. Auk þessa áttuðum við okkur betur á því hvar veikleikarnir okkar liggja og þá hvað það er sem við þurfum að hugsa betur.“

RO3

 

Hráefni vörunnar að fullu endurnýtanlegt

Hver er staða RÓ ullardýnunnar í dag? „RÓ ullardýnan er eftir því sem við best vitum eina dýnan á markaði sem einvörðungu er unnin út ull og gefur alla þá kosti sem ullin hefur, en hún er heilsusamlegasti kosturinn sem hægt er að velja fyrir svefnstæði. Við leggjum áherslu á vinna með náttúrlegt hráefni sem er að fullu endurnýtanlegt.

Þórunn segir ullardýnuna vera hjartað í RÓ-línunni en auk þess hafi púðar bæst við sem fengu aðf að fljóta með á sýninguna.

„Við höfum í rauninni unnið að dýnunni síðan við hófum okkar samstarf árið 2012 þó svo að hún hafi ekki verið frumsýnd fyrr en á HönnunarMars í fyrra. Hugmyndafræðin okkar gengur öll út á hægt tempó og við höfum ekki ráðgert einhverjar ægilegar sölutölur heldur stefnum á að fara hægt upp á við, en við erum akkúrat á þeim stað núna sem við viljum vera.

Núna eftir sýninguna förum við að vinna í því að koma RÓ vörunum í umboðssölu, ná samningum við fáa og vel valda aðila sem miðla þeim áfram fyrir okkur, en auk þess erum við með fleiri verkefni á teikniborðinu í þessari línu.“

Heimasíðu RoShamBo má sjá hér

RO2

RO1

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar