„Allir tónlistarmenn vilja á endanum spila fyrir fólk“

Norðfirska rokkhljómsveitin Coney Island Babies heldur loks langþráða útgáfutónleika í félagsheimilinu Egilsbúð á miðvikudag. Sveitin sendi síðasta sumar frá sér sína aðra breiðskífu, Curbstone.

Curbstone kom út í júlí og fékk fínar viðtökur, en lagið Swirl varð í 32. sæti yfir mest spiluðu lögin á Rás 2 síðasta sumar.

Síðan hefur sveitin nokkrum sinnum stefnt á að halda útgáfutónleika en ekki tekist vegna samkomutakmarkana. Nú hefur verið boðað til þeirra síðasta vetrardag og að sögn Jóns Knúts Ásmundssonar, trommara sveitarinnar, er mikil eftirvænting í hennar röðum.

„Allir tónlistarmenn sem leggja út í það að semja tónlist, hljóðrita hana og gefa út, með allri þeirri fyrirhöfn, tíma og orku, sem í þetta fer, vilja á endanum hitta fólk og spila fyrir það,“ segir hann.

Við biðina eftir tónleikunum bætist sá tími sem tók að gera plötuna, en fyrri plata sveitarinnar, A Morning to Kill, kom út árið 2012. Á tónleikunum á morgun verður nýja platan flutt í heild sinni ásamt lögum af þeirri eldri.

„Meðgangan að plötunni okkar síðustu var ansi löng og ströng. Þegar hún loksins kom út í fyrrasumar lá að baki nokkurra ára vinna þótt upptökurnar hefðu gengið hratt og vel fyrir sig.

Það er bara partur af prógramminu að nýjar plötur fái sitt veganesti með tónleikum en úr því hefur ekki enn orðið af augljósum ástæðum. Við höfum reynt fjórum eða fimm sinnum og það er því afskaplega góð tilfinning að vera búin að stilla upp í Egilsbúð og annað kvöld, fari allt vel, spilum við saman sem hljómsveit og það er einstök tilfinning,“ segir Jón Knútur.

Hljómsveitin var stofnuð árið 2004 og hefur starfað með stuttum hléum alla tíð síðan. Í henni eru Geir Sigurpáll Hlöðversson, Guðmundur Höskuldsson, Jón Knútur Ásmundsson, Jón Hafliði Sigurjónsson og Rannveig Júlía Sigurpálsdóttir en þau tvö síðastnefndu eru nýjustu meðlimir sveitarinnar. Þau lýsa sjálfum sér sem „indí-bandi, innblásið af þungum og þéttum takti hinnar norðfirsku öldu og tregafullri tilvist hins miðaldra nútímamanns.“

Tónleikarnir hefjast annað kvöld klukkan 20:00. Minnt er á gildandi sóttvarnatakmarkanir en meðal annars þurfa gestir að vera skráðir í sæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.