Allir vita hvað Kökubærinn er

Um fimmtán ára skeið hefur sú hefð verið við lýði á Fáskrúðsfirði að öll erlend skip sem þar koma til hafnar fá að gjöf stóra og mikla tertu í boði Loðnuvinnslunnar. Bærinn þannig orðinn vel þekktur sem Cake Town eða Kageport eftir atvikum.

Það eru hjónin Björg Hjelm og Óðinn Magnason hjá Sumarlínu sem ávallt hafa séð um baksturinn í hvert skipti og til að gera gott betra keyptu þau sérstakan kökuprentara fyrir nokkrum árum svo nú eru allar terturnar skreyttar með mynd af því skipi sem um ræðir í hvert skipti. Óðinn hefur þó enga tölu á heildarfjölda sem þau hafa bakað gegnum árin.

Ég kann nú ekki að nefna fjöldann, en þetta er töluvert magn af kökum frá upphafi. Við erum búin að vera hér með staðinn í sautján ár og það var fyrir fimmtán árum, 2008 eða kringum það, að þá er einhver innan stjórnkerfisins sem ákveður það að fara með tertu um borð í eitthvað skipið sem var á leiðinni í land með allra fyrstu loðnuna þá vertíðina. Ég man nú ekki hvaða skip það var en í kjölfar þessa þá fer þetta smátt og smátt að aukast og hefð komst á.

Í dag er það svo að nánast allir skipverjar á öllum skipum sem stunda veiðar á Austfjörðum vita mætavel hvaða gotterí bíður þeirra ef þeir landa á Fáskrúðsfirði

Ég hef orðið mjög var við að fréttir af þessari sérvisku okkar hér hafa dreifst víða og engin tilviljun að meðal norskra sjómanna eru við þekkt sem Cake Town og sem Kageport hjá dönskum og færeyskum sjófarendum. Við erum alveg sátt við það og dálítið merkilegt hvað vitneskja um þetta fyrirbæri er rík hjá fjölmörgum áhöfnum sem hingað til lands koma.“

Fátt amalegt við að koma til hafnar í erlendri höfn og fá að gjöf heljarinnar tertu sem þakklætisvott. Mynd Óðinn Magnason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar