Allt annað og verra að greinast úti á landi

Hrefna Eyþórsdóttir hefur undanfarin þrjú ár stýrt Krabbameinsfélagi Austfjarða. Sjálf býr Hrefna yfir mikilli reynslu beggja vegna borðsins því hún sjálf greindist ung með brjóstakrabbamein.

Hrefna, sem er alin upp á Fáskrúðsfirði, lauk námi í sjúkraþjálfun og flutti síðan austur. Haustið 2015 berast henni þau tíðindi að BRCA2-genið, sem eykur líkurnar á brjóstakrabbameini, hafi greinst innan fjölskyldunnar og fljótt kemur í ljós að Hrefna ber það sjálf.

Hrefna var þarna komin í fæðingarorlof og hélt sínu striki þar. Þegar nýfætt barn hennar hættir á brjósti fer hún til læknis til að kanna málið frekar en finnur þá hnút. „Þar kemur í ljós að ég er með þriðja stigs brjóstakrabbamein sem búið var að dreifa sér í eitla. Greinist þannig í desember 2017 tveimur árum eftir að ég vissi að ég væri með BRCA2 gen.“

Hrefna var drifin umsvifalaust í dýpra greiningarferli og upp úr kemur að aðgerð er nauðsyn og í janúar 2018 fór Hrefna í tvöfalt brjóstnám. Bæði brjóst eru oftast nær tekin sem fyrirbyggjandi aðgerð þó aðeins sé hnútur í öðru brjóstinu þegar um BRCA2 er að ræða því líkurnar á brjóstakrabbameini eru yfir 80 prósent.

„Með slíkri fyrirbyggjandi aðgerð ertu búin að minnka líkurnar niður í þrjú prósent. Mín hugsun var að þegar maður er komin með fjölskyldu og börn vill maður gera allt sem hægt er til að minnka líkurnar í framtíðinni.“

Hún hefur síðan helgað sig baráttunni fyrir stöðu krabbameinssjúklinga á Austurlandi í gegnum Krabbameinsfélag Austfjarða. Að kljást við krabbamein er erfitt verkefni, ekki síst þegar sækja þarf stuðninginn utan að landi til höfuðborgarinnar eða til Akureyrar. Þörf er á fjárhagslegum stuðningi því meðferðir og lyft kosta tíma og peninga til viðbótar við ferðalögin en andlegur stuðningur er líka afar mikilvægur fyrir bæði sjúklinginn og hans nánustu.

„Undantekningarlítið þarf fólk héðan af Austurlandi að leita suður eftir meðferðum. Stundum nægir að fara til Akureyrar en allir vita að ferðalög þangað að vetrarlagi eru oft ekki spennandi kostur. Ef þú býrð fyrir sunnan þá ertu kannski að fara í myndatöku klukkan 14 og komin heim síðdegis. Svo færðu læknaviðtal eftir tvo, þrjá sólarhringa. En ef þú býrð hér þá þarftu kannski fjóra, fimm daga fyrir sunnan til að njóta sömu þjónustu og komast heim aftur áður en helgin gengur í garð. Tímaramminn er miklu, miklu lengri.“

Hrefna segir að tilteknar lyfjagjafir vegna krabbameins séu mögulegar á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað en því ferli sé öllu stýrt að norðan eða sunnan og fólk þurfi alltaf á þá staði í greiningu. Sé þörf á að hitta krabbameinslækni þá þarf slíkt að gerast fyrir sunnan auk þess sem fyrstu lyfjagjafir séu undantekningarlaust þar sökum þess að lyfin fara mjög misjafnlega í fólk og eftirlits er þörf á þeim tíma.

„Svo þarftu alltaf að hafa einhver aðstandanda með þér. Þetta er þannig tími að þú meðtekur kannski ekki allt sem þú þarft að meðtaka. Þú þarft hjálpina frá einhverjum nákomnum við þessar aðstæður.“

Lengri útgáfa birtist í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.