„Allt í einu á ég verslun á Seyðisfirði“

„Við opnuðum í síðustu viku og viðtökurnar hafa verið ekkert minna en frábærar hingað til,“ segir Guðrún Tinna Thorlacius, sem ásamt fjölskyldu sinni hefur opnað gjafavöruverslunina Steinholt & Co í hinu reisulega og þekkta húsi Steinholti á Seyðisfirði.

Guðrún Tinna er að eigin sögn algjör nýgræðingur hér austanlands en eftir að hafa búið í þéttbýlinu á suðvesturhorninu lunga ævinnar fór hana að langa að komast í nýtt umhverfi úti á landi.

„Ég fór að leita hófanna árið 2019 og aftur 2020 og hafði þá samband við fólk sem ég kannaðist við á Seyðisfirði. Í bæði skipti þurfti ég að hætta við því ekkert húsnæði fannst fyrir mig þá. Svo prófaði ég aftur 2021 og þá sagði Benedikta [Guðrún Svavarsdóttir] mér bara að koma og hér er ég nú og kann frábærlega við mig. Það svo mikið gengið á upp á síðkastið að ég áttaði mig seint á að ég ætti allt í einu verslun hér á Seyðisfirði.“

Verslun Guðrúnar Tinnu er á jarðhæð Steinholts en töluverðar framkvæmdir hafa verið á húsinu undanfarin misseri sem nú er að mestu lokið. Á annarri hæð býr Guðrún og fjölskylda ásamt tveimur hundum og þar eru fleiri íbúðir sem leigðar eru út til skamms tíma. Í risinu er svo stór íbúð sem ætluð er til langtímaleigu.

„Ég er á kafi í sjósundi sjálf og í búðinni er ég að selja búnað til sjósunds en þess utan ýmsar gjafavörur og mig langar mjög að auka úrval af vörum sem fólk hér í grenndinni er að dúlla sér við að framleiða eða hanna. Öllum slíkum aðilum velkomið að hafa samband við mig.“

Guðrún Tinna er velþekkt fyrir mikinn áhuga á Tarot og göldrum og hún getur vel hugsað sér að bjóða upp á námskeið því tengdu þegar fram líða stundir.

„Það kemur sannarlega til greina. Ég kann svo afskaplega vel við mig hér að ég er ekkert á förum neitt og ef áhugi er fyrir hendi skoða ég það að sjálfsögðu.“

Guðrún Tinna í nýrri verslun sinni með barnabarnið Glóbjörtu Lillý í fanginu. Mynd úr einkasafni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.